Bók 3: Dager i stillhetens historie eftir Merethe Lindstrøm

lindstrom_dager-i-stillhetens-historie_webÞessi bók fékk Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2012 en ég veit ekki hvort sé búið að þýða hana yfir á íslensku. Mér finnst eiginlega hálf furðulegt ef það er ekki búið en ég finn engar upplýsingar um íslenska útgáfu með stuttri google-leit.

Bókin fjallar um eldri hjón og hvernig atburðir í fortíð þeirra hafa haft áhrif á þau eins og þau eru núna. Hún er sögð frá sjónarhorni konunnar, Evu, og byrjar þegar hún er farin að lifa æ meira í þögninni þar sem maðurinn hennar er samasem hættur að tala. Við komumst að því að hann er gyðingur sem flúði til Noregs með fjölskyldu sinni í seinni heimsstyrjöldinni og hefur þurft að horfa uppá marga ættingja sína hverfa.

Mér finnst eins og þögnin sé þema sem búið er að meðhöndla mjög mikið í öðrum bókum, sem og seinni heimstyrjöldin og gyðingar í felum. Vegna þessa upplifði ég bókina ekki sem frumlega og frekar sem örlítið endurtekningarsama. Tungumálið er samt flott, bókin er mjög lágstemmd en vekur þrátt fyrir allt með manni forvitni, það eru einhver leyndarmál sem þau hjónin búa yfir sem við fáum ekkert að vita strax.

Þetta er bók sem þú lest, ekki beinlýnis til að skemmta þér, heldur til þess að finnast sem þú sért að upplifa Bókmenntir (með stóru B-i). Fín sem slík en ekki mitt uppáhald.

Auglýsingar

Bók 2: Sweet Tooth eftir Ian McEwan

sweet toothÞetta er nýjasta bókin eftir Ian McEwan sem er hvað frægastur fyrir Atonement enda var hún gerð að kvikmynd en hann hefur einnig unnið Booker verðlaunin fyrir stuttu skáldsöguna Amsterdam. Ég er hrifin af flestu sem McEwan skrifar og var því spennt að lesa þessa.

Bókin gerist á áttunda áratugnum í Englandi, að mestu í London og Brighton. Hún fjallar um unga konu, Serenu Frome sem er ráðin í leyniþjónustuna í Bretlandi. Hún vinnur fyrst sem ritari en er síðan fengin í verkefni sem ber heitið Sweet Tooth og snýst um að halda uppi rithöfundum sem eru líklegir að skrifa bækur á móti kommúnisma. Einn rithöfundurinn á að vera skáld og þar sem Serena les mikið af skáldsögum er hún fengin til að sjá um hann. Rithöfundurinn má samt að sjálfsögðu ekki vita að hann sé að fá pening frá leyniþjónustunni og heldur að Serena vinni fyrir listasjóð sem flækir málin þegar þau verða ástfangin.

McEwan skrifar Serenu Frome sem frekar heimskan leiksopp annara valda. Hún berst með straumnum og þó að hún lesi mikið gerir það hana ekki klára þar sem hún les bækurnar svo hratt að hún man varla neitt eftir þeim þegar hún er búin. Auk þess les hún mest bækur eftir léttvæga/”ómerkilega” rithöfunda. Ég hef heyrt það í gagnrýni um þessa bók að með þessu sjáist hvaða tillit McEwan hefur til kvenkyns lesenda sinna og að bókin hafi gert gagnrýnandann mjög pirraðan á meðan hann las (sjá gagnýni á NPR). Þetta truflaði mig samt ekki þar sem það kemur í ljós í lok bókar hver ástæðan er fyrir þessu með stórri fléttu (er það ekki annars íslenska orðið fyrir “twist”?) svo manni langar næstum að byrja aftur á bókinni frá byrjun.

Mér fannst bókin skemmtileg og auðveld lesning. Það var gaman að týna sér í London áttunda áratugarins og ég reyndi að pirra mig ekki of mikið á því hvernig McEwan skrifaði aðalsöguhetjuna af því að ég hafði heyrt af fléttunni í lokin sem ég vonaði að myndi útskýra það eða milda. Sem hún og gerði svo ég var ánægð og myndi mæla með bókinni.

Bók 1: Gísli á Uppsölum eftir Ingibjörgu Reynisdóttur

gisliÞessi bók var stutt og auðveld lesning. Hún segir okkur frá ævi Gísla, frá blautu barnsbeini og til dauða hans.

Bókin er skemmtilega sett upp með myndum sem blandast við textann en innihaldið mætti vera kjötmeira.

Það var samt mjög áhugavert að lesa um ævi Gísla, hvernig einstaklingur getur lifað svo einangruðu lífi. Mjög sorglegt líka, að sjálfsögðu. Einangrun hans virðist hafa komið til af einelti sem hann mátti þola þann stutta tíma sem hann gekk í skóla en einnig af hlýðni við mömmu sína sem vildi greinilega helst bara hafa hann heima og bannaði honum að elta stelpu sem hann var skotinn í útúr sveitinni.

Það var eitt sem böggaði mig stundum og það var að höfundur gefur sér ýmislegt um innri hugarheim Gísla sem hún getur ekki mögulega vitað. Hugsanir sem hún gefur honum jafnt og tilfinningar taka mann út úr forminu og það er eins og hún hafi ekki alveg getað ákveðið sig hvort þetta ætti að vera hrein eða skálduð ævisaga.

Það hefði verið mjög gaman að fá aðeins dýpri innsýnir í líf Gísla en á heildina litið er bókin skemmtileg og fljótleg aflestrar.