Uppáhalds (og minnst uppáhalds) bækur 2012

Ef ég á að velja uppáhalds og síst uppáhalds bækur ársins sem leið, og þá á ég við bækur sem ég las á árinu ekki bækur gefnar út það ár, mundi það vera einhvernveginn á þessa leið:

Uppáhalds:

What I Loved eftir Siri Hustvedt. Þetta var fyrsta bókin sem ég las á árinu 2012 og því orðið langt síðan ég las hana. Man að hún var innileg, áhugaverð saga um tvo vini og fjölskyldur þeirra. Tungumálið var fallegt og mjög áhugaverðar lýsingar á listaverkum.

Ljósa eftir Kristínu Steinsdóttur. Líka langt síðan ég las þessa. Bókin segir frá ævi Ljósu, eins og hún var kölluð, sem stúlku, húsmóður, móður og mannesku sem glímir við geðsjúkdóm. Mjög innileg eins og fyrrnefnd bók og áhugaverð saga.

Fluga á vegg eftir Ólaf Hauk Símonarson. Fjölskyldusaga og uppvaxtarsaga. Hef alltaf gaman af þannig. Frásögn með húmor. Kannski spilaði inní að hérna var saga frá Reykjavík og ég var með heimþrá.

Great Expectations eftir Charles Dickens. Þetta var fyrsta bókin sem ég las eftir Dickens og hún var mjög skemmtileg. Það kom mér reyndar á óvart hversu skemmtileg og fyndin hún var. Mjög áhugaverðir karakterar og ekki klisjukenndur endir.

Cloud Atlas eftir David Mitchell. Margar sögur, fléttaðar saman. Allar sagðar með mismunandi stíl. Mjög sundurleitar sögur en einhvernveginn tekst Mitchell að láta þær hanga saman. Fannst helst pirrandi að lesa söguna sem gerist lengst í framtíðinni þar sem hún var skrifuð með hreim, þ.e.a.s. enskan var vitlaust skrifuð til þess að sýna það hvernig fólkið talaði. Sagan af klóninum fannst mér áhugaverðust en einnig elsta sagan sem gerist að miklu leiti á bát þar sem augljóslega er verið að eitra fyrir sögumanninum en hann veit það ekki sjálfur. Hef ekki séð kvikmyndina, þar sem það er ekki ennþá farið að sýna hana hérna í Noregi, en er spennt fyrir henni.

Beatles eftir Lars Saabye Christensen. Þetta er norsk bók og segir uppvaxtarsögu fjögurra vina sem búa í Osló sem eru mjög hrifnir af Bítlunum. Kaflarnir bera heiti platna frá Bítlunum og drengirnir eldast í takt við tónlist Bítlanna sem þróast, fyrst eru þeir saklausir eins og Please Please Me og svo í lokin meira djúpt þenkjandi í takt við White Album og Let it Be.

Allt með kossi vekur eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur. Ég er mjög hrifin af bókum Guðrúnar Evu, eða þeirra sem ég hef lesið. Þær eru alltaf svo spes, eitthvað aðeins öðruvísi í heiminum sem hún býr til, næstum yfirnáttúrulegt en ekki alveg hægt að benda á það (er hérna kannski helst að hugsa um Yosoy sem ég var mjög hrifin af). Þessi var mjög í þeim anda og skemmtileg. Davíð er ættleiddur sonur Elísabetar. Hún telur að sem unglingur hafi henni verið gefinn koss sem gerir það að verkum að hún hefur botnlausa orku og þarf aldrei að sofa. Davíð er alinn upp við þetta viðhorf en fer, þegar hann er unglingur sjálfur, að efast um þessa sögu móður sinnar. Það voru nokkrir hlutir sem trufluðu mig við þessa bók, formið á frásögninni ekki minnst þ.e.a.s. að Davíð sé að púsla saman vitneskju úr dagbókum og frásögn móður sinnar til að fá söguna, en sagan var mjög frumleg og áhugaverð.

Minnst uppáhalds: Hunger Games þríleikurinn (fyrir utan kannski fyrstu bókina sem var ágæt), Super Sad True Lovestory eftir Gary Shteyngart, Extremely Loud and Incredibly Close eftir Jonathan Safran Foer og The Finkler Question eftir Howard Jacobson (sem vann Booker verðlaunin svo ég hlýt að hafa verið að misskilja hana eitthvað, fannst hún bara svo leiðinleg).

Auglýsingar

Bók 8: Reykjavíkurnætur eftir Arnald Indriðason

ReykjavíkurnæturNýjasti krimminn frá Arnaldi. Góður vinur gaf mér þessa þegar við vorum á Íslandi um jólin, hann var búinn að lesa hana sjálfur vildi miðla henni áfram.

Þetta er saga sem segir frá fyrsta málinu hans Erlendar sem Arnaldur hefur skrifað um áður og þarf vart að kynna. Hann leysti máilið á meðan hann var ennþá að vinna í umferðarlögreglunni og þannig segir bókin frá því hvernig hann varð rannsóknarlögga. Málið sem hann er að rannsaka er morð á róna sem er búið að afgreiða sem slys. Honum finnst eins og meira búi að baki og fer á snoðirnar.

Ég er enginn gríðarlegur krimmaaðdáandi þó að ég lesi þá alveg inn á milli, svo ég er kannski ekki svo dómbær á þessa bók. Kannski var hún aðallega skrifuð fyrir þá sem þekkja Erlend út og inn og hafa áhuga á að vita meira um baksöguna hans. Morðið sem slíkt sem hann er að rannsaka í bókinni er ekki áhugavert né spennandi. Þetta var ósköp ágæt létt lesning á milli lengri og þyngri bóka.

Bók 7: The Snow Child eftir Eowyn Ivey

snow-childÞessa bók las ég um á bresku bókabloggi einu Savidge Reads en Simon Savidge sem rekur það var alveg sérstaklega hrifinn af henni. Þar sem við deilum ást á Daphne Du Maurier ákvað ég að skella mér á þessa og fékk mér hana á Kyndilinn.

Sagan gerist í Alaska á þriðja áratug síðustu aldar meðal amerískra frumbyggja sem eru að reyna að rækta landið og lifa af því. Stærstur hluti frásagnarinnar fer fram að vetri til, en þó yfir marga vetur sem spanna allavega tíu ár.

Hjón nokkur sem komin eru á miðjan aldur og hafa alltaf þráð að eignast barn búa til lítinn snjókarl sem þau ákveða að sé stelpa og klæða í vettlinga og trefil. Um nóttina hverfur snjókarlinn ásamt vettlingunum og treflinum en spor liggja í burtu frá honum og inní nærliggjandi skóg. Uppúr þessu fara þau af og til að taka eftir lítilli stúlku í skóginum, alltaf í fjarlægð og í fylgd með litlum ref. Þau þora engum að segja frá þessu enda er ekki á hreinu hvort stúlkan er raunveruleg. Eiga þau að hafa áhyggjur af litlu stúlkubarni, einu á flakki um skóginn um hávetur, eða kannski frekar af sinni eigin geðheilsu?

Þetta er sæt ævintýrasaga sem er alveg fullkomin að lesa yfir svartasta veturinn. Ég las hana í smáum skömmtum í lestinni til og frá vinnu en hún væri auk þess tilvalin sunnudagslesning á köldum vetrardegi þegar veðrið er of leiðinlegt til þess að fara út úr húsi.

Bók 6: Ósjálfrátt eftir Auði Jónsdóttur

ÓsjálfráttÓsjálfrátt var með vinsælli bókum í jólabókaflóðinu 2012 og ég hef lesið Fólkið í kjallaranum eftir Auði sem ég var mjög hrifin af. Þess vegna tók ég upp þessa.

Bókin fjallar um Eyju sem er ung og gift manni sem er á aldur við móður hennar. Hann er alkóhólisti og gerir hana ekki hamingjusama. Henni langar til þess að skrifa en hefur hingað til ekkert gefið út fyrir utan eitt viðtal við nektardansmey. Mamma hennar sem er líka alki er rosalega hæfileikaríkur penni en er hætt að skrifa.

Maður áttar sig fljótt á því við lesturinn að sagan er meira en lítið sjálfsævisöguleg. Samt er aðalsöguhetjan, Eyja, í svo miklu rugli og tekur svo mikið af lélegum ákvörðunum. Ef þetta er allt sjálfsævisögulegt, ekki bara hlutarnir þar sem hún talar um fjölskylduna sína, afann sem er þjóðarskáld og ömmuna með sama nafn og hún sjálf, þá hefur hún ótrúlegan hæfileika fyrir því að sjá sjálfa sig og mistök sín með fjarlægð.

Eyja fær að lokum tækifæri til að skrifa fyrir tilstilli mömmu sinnar og frænku, með góðri hjálp frá ömmunni. Hún fer með frænkunni til Svíþjóðar þar sem hún á að hjálpa til við rekstur sumarbúða. Tilgangur kvennanna í fjölskyldunni með þessu var ekki einungis að hjálpa henni að skrifa heldur líka að losa hana við eiginmanninn sem hana skortir viljan eða áræðnina til að gera sjálf.

Bókin gefur manni skemmtilega innsýn inn í skrif og líf rithöfunds. Hún er mjög hreinskilin og líka fyndin á köflum. Fjölskyldusagan sem er samofin sögunni um Eyju er líka mjög áhugaverð, sérstaklega fyrir að vera um þessa landsþekktu fjölskyldu. Mér líkaði auk þess mjög vel við röddina í þessari bók, hún er viðkunnarleg þó svo að manni finnist Eyja oft ekki nógu dugleg að standa á sínu. Væri hægt að kalla hana skemmtilega gallaða og mannlega, og það er náttúrlega eins og persónusköpun gerist best.

Bók 5: Joseph Anton. A Memoir eftir Salman Rushdie

data

Mér var að detta í hug að það gæti verið ágæt regla að byrja umfjöllun mínar um bækur á því að segja frá því hvernig ég fann þær eða af hverju ég ákvað að lesa þær.

Ég heyrði viðtal við Salman Rushdie í sambandi við útgáfu þessarar bókar á hlaðvarpinu NPR Books en þar eru vikulega teknar saman helstu umfjallanir um bækur frá bandarísku útvarpsstöðinni NPR eða National Public Radio. 

Í bókinni skrifar Rushdie endurminningar sínar frá þeim tíma sem hann var í felum vegna dauðadóms sem hann fékk á sig frá íslömskum öfgatrúarmönnum í kjölfar útgáfu bókar hans Söngvar satans eða The Satanic Verses. Joshep Anton var dulnefnið sem hann tók upp á þessum tíma og setti hann það saman úr nöfnum tveggja rithöfunda, Joseph eftir Joseph Conrad en Anton frá Anton Chekhov.

Ég er búin að kvíða því svolítið að skrifa niður hugleiðingar mínar um þessa bók. Það er erfitt að gera það á stuttan og hnitmiðaðan máta. Hún er nefninlega frekar löng, hátt í 700 blaðsíður, og segir mjög ítarlega frá lífi hans í felum og pólitíska umhverfinu í kringum þann tíma.

Það hafa að sjálfsögðu allir sína skoðun á Rushdie, fæstum finnst það réttlætanlegt að drepa mann útaf skoðunum sínum en sumum finnst að hann hafi getað verið auðmjúkari og þannig bundið enda á ofsóknirnar á sig fyrr. Ofsóknirnar höfðu nefninlega áhrif á mun fleiri en bara hann, t.d. útgefendur hans og þýðendur, en einn þýðandinn hans var m.a. drepinn og útgefandi hans í Noregi skotinn en lifði fyrir ótrúlega heppni af. Rushdie stóð samt fastur á sínu nánast allan tímann, að rétt skyldi vera rétt og að það mætti ekki leyfa kúgurunum að sigra. Það sló mig að meðal þeirra múslima sem töldu rétt að taka Rushdie af lífi var listamaðurinn sem kallaði sig áður Cat Stevens en núna Yusuf Islam.

Mér fannst mjög áhugavert að lesa um einkalífið hans á þessum tíma, hann er að ala upp son sinn með fyrrverandi konu sinni ásamt því að skilja við konu númer tvö, giftast aftur og eignast annan son, skilja svo við þá konu og giftast í fjórða sinn. Leynilögreglumennirnir sem þurftu að búa heima hjá honum lengst af og samskipti hans við þá var líka gaman að lesa um sem og við góða vini hans, sem eru margir hverjir þekktir úr bókmenntaheiminum. Það var líka gaman að lesa um það hvernig hann skrifaði bækurnar sínar, hver var kveikjan að þeim og hvernig hann fléttaði marga ólíka þætti saman til að mynda söguþráðinn í t.d. Söngvum satans. Þetta er mjög góð bók og vekur upp mörg umhugsunarefni hjá lesandanum. Það er alltaf gaman að lesa þannig bækur, sem skilja eftir sig spurningar og vangaveltur.

Það hefur lengi verið takmark hjá mér að reyna að lesa meira „non-fiction“ (er íslenska hugtakið ekki „fræðibókmenntir og bækur almenns efnis“, frekar mikil langloka). Í fyrra las ég fjórar svoleiðis. Það sem af er árinu 2013 er ég þegar búin að lesa tvær, þessa og bókina um Gísla á Uppsölum. Tölfræðilega stend ég mig því vel.

Bækur ársins 2012. Tölfræðin

Eins og ég hef sagt áður las ég 53 bækur í fyrra. Mér datt í hug að taka aðeins saman tölfræðina yfir þær og notaði til þess uppáhalds verkfærið mitt, excel!

Bækur 2012 lond

Ég las 32 bækur á ensku hvoraf allar nema tvær voru eftir bandaríska eða breska rithöfunda. Tvær eftir Japana (samt lesnar á ensku), tólf bækur las ég á íslensku og níu á norsku.

Bækur 2012 kyn

Ég las 27 bækur eftir konur og 26 eftir karlmenn

Ég er nú bara frekar stolt af því hvernig þetta skiptist eftir kynjum. Ég hef séð marga tala um það á netinu, helst konur, að þær vilji lesa meira eftir kvenkyns rithöfunda af því að það virðist halla á þær í bókmenntaheiminum eins og víðar. Ég var ekkert sérstaklega að spá í kyni höfundar á árinu sem leið en las samt, alveg óvart, meira eftir konur er menn.

Ég las líka 12 bækur á íslensku sem er 23% allra bókanna sem ég las, nokkuð gott miðað við að á árinu var ég í heild einungis í þrjár vikur á Íslandi. Þarna kemur að vísu sterk inn íslenska deildin á Deichmanske bókasafninu hér í Osló.

Bráðum ætla ég svo að taka saman mest og minnst uppáhalds bækur mínar af þessum 53, hverjar er ég enn að hugsa um og hverjar voru algerlega gleymanlegar.

Bók 4: Wonderstruck eftir Brian Selznick

9780545027892_custom-643485512fa2323349754b08d75867c74ad6e370-s6-c10Þetta er bók númer tvö eftir höfund The Invention of Hugo Cabret, en Martin Scorsese gerði einmitt myndina Hugo eftir henni. Þá bók las ég í fyrra.

Bækur Selznick eru samblanda af heilsíðu blýantsteikningum og texta sem spannar síðurnar á milli og eru því mjög óvenjulegar í uppsetningu. Sögurnar eru sakleysislegar og segja frá börnum og ævintýrunum sem þau lenda í.

Þessi bók segir tvær sögur sem sameinast í lokin í eina. Önnur sagan, saga af heyrnalausri stelpu á þriðja áratugnum, er sögð einungis í teikningum. Hin sagan, saga af ný-munaðarlausum dreng og leit hans að föður sínum á áttunda áratugnum, er sögð einungis í textanum.  Sögurnar fléttast saman, heyrnaleysi og náttúrugripasafnið í New York (Museum of Natural History) eru sameiginlegir þættir og í lokin koma þær svo loks saman og þá fáum við teikningar af drengnum og texta um heyrnalausu stúlkuna.

Teikningarnar eru mjög fallegar og lifandi, maður getur alveg týnt sér í þeim að skoða hin ýmsu smáatriði í þeim. Sagan er sæt og skemmtileg aflestrar en ekkert mikið meira en það. Ég verð að viðurkenna að ég las fyrstu bók Selznicks, The Invention of Hugo Cabret, útaf því að ég hafði heyrt um kvikmyndaútgáfuna og svo las ég þessa bók af því að ég hafði lesið þá fyrri. Bækurnar eru frekar ætlaðar yngri lesendum og því kannski ekkert að marka að ég hafi ekki verið að missa mig yfir þeim.