Bók 12: Bring Up the Bodies eftir Hilary Mantel

33.Hilary Mantel-Bring up the BodiesÞessi bók vann Man Booker verðlaunin í 2012. Bókin er bók númer tvö í því sem á að enda með að verða þríleikur um Thomas Cromwell og ég las einmitt fyrri bókina, Wolf Hall, líka. Sú bók hlaut einnig Booker verðlaunin.

Bókin segir okkur frá tímabili í ævi Thomas Cromwell, umdeilds aðalráðherra eða -ráðgjafa Hinriks áttunda Englandskonungs, en saman munu bækurnar þrjár segja frá uppgangi og að lokum falli hans. Í þessari bók, miðju bókinni, er hann á hápunkti velgengni sinnar. Hinrik er giftur Anne Boleyn í upphafi bókar en er að reyna að losa sig úr því hjónabandi svo hann geti gifst Jane Seymour. Til þess þarf hann Cromwell til að hjálpa sér.

Þetta hljómar kannski ekki mjög áhugavert en Mantel tekst að skrifa það þannig að maður sekkur alveg inní þennan heim og gleymir því að maður veit alveg hvernig hlutirnir enda, þ.e. með höfuðslausri Anne. Tungumálið er mjög skemmtilegt, gamaldags en samt ekki of þungt. 

Í fyrri bókinni í þessari seríu, Wolf Hall, hafði Mantel þann ruglandi sið að nota alltaf karlyns persónufornafn í eintölu til þess að vísa til Cromwells („hann“) sama þó hún væri í miðri málsgrein um annan mann og stundum þurfti maður því að lesa heilu blaðsíðurnar aftur til að átta sig á því um hvern var verið að tala. Þetta lagar hún hér með því að bæta við nafninu hans („hann, Cromwell,…“) og það gerir lestur þessarar bókar svo miklu ánægjulegri en hinnar fyrri. Ég veit að Mantel hafði fengið sterk viðbrögð við þessum sið sínum en sumum fannst það víst svo flott. Ég er fegin að hún hlustaði ekki á þá.

Mér finnst þetta tímabil mjög áhugavert og sérstaklega er Hinrik áhugaverður sem persóna. Þrátt fyrir það hef ég ekki ennþá náð að gleyma mér í sjónvarpsþáttunum The Tudors, sem fjalla einmitt um sama tímabil í Englandssögunni. Einhvernveginn grípa þeir þættir mig ekki en bækur Mantels, sem ég tók fyrst upp full efa þegar sú fyrri vann Booker verðlaunin, gera það algerlega. Það er eitthvað við það að upplifa sögulega atburði í gegnum svona sögurlega skáldsögur, þó svo að ég geri mér auðvitað fulla grein fyrir að þetta séu skáldsögur og því ekki hægt að trúa öllu sem í þeim er. Ef maður hefur áhuga á sögu en nennir ekki endilega að liggja yfir sögubókum er þetta ágætur valkostur. Og skaðar auðvitað ekki þegar sögulegu skáldsögurnar sem um reynir eru svona svakalega vel skrifaðar.

Auglýsingar

Bók 11: Undantekningin eftir Auði Övu Ólafsdóttur

undantekninginÞetta er fyrsta bókin sem ég les eftir Auði Övu en eftir hana er ég spennt að lesa meira. Ég bað um hana í jólagjöf vegna þess að hún var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og mér fannst söguþráðurinn hljóma áhugaverður.

Það er erfitt að lýsa þessari bók í stuttu máli þar sem hún er ekki hrein og bein saga. Hún er saga um sögu sem fjallar um skáldskapinn sjálfan.

Á yfirborðinu er sagan mjög áhugaverð, eins og áður sagði: Karlmaður segir eiginkonu sinni til ellefu ára og móður barna sinna á gamlárskvöld að hún sé undantekningin í hans lífi og í rauninni sé hann meira gefinn fyrir karlmenn. Hann er að fara frá henni fyrir samstarfsmann sinn og nafna.

Það hefur nær allt þýðingu í þessari bók, eins og nafnið á manninum, Flóki, og sérsvið hans sem er í óreiðukenningunni. María, undantekningin hans, vinnur við hjálparstarf og er þannig tákngerving móðurinnar og verndarans. Vinkona og sérlegur ráðgjafi Maríu heitir Perla og er sálgreinir og glæpasagnarithöfundur, hún býr í kjallaranum. Táknar hún undirmeðvitundina sjálfa en einnig er hún fulltrúi rithöfundarins og kemur með margar perlur (haha) um skáldskapinn.

Ég vil eiginlega ekki segja of mikið um þessa bók. Það er lang best að fá að upplifa hana sjálfur og láta hana koma sér á óvart í leiðinni, hvernig hún dansar á mörkum þess og hoppar fram og til baka yfir mörkin að vera „meta“ (veit ekki hvert hugtakið er á íslensku en það þýðir allavega að fjalla um sjálfa sig, skáldsaga um skáldskap). Ég mæli eindregið með henni og þykir miður að hún hafi ekki unnið Íslensku bókmenntaverðlaunin en ég get nú samt ekki dæmt þar sem ég er ekki búin að lesa Illsku eftir Eirík Örn, hún situr uppí hillu og bíður þolinmóð eftir að ég taki sig upp.

Bók 10: It eftir Stephen King

IT coverÉg hef lengi verið hrifin af sögum Stephen King og lesið margar af hans bókum. Þær voru fyrstu „fullorðinsbækurnar“ sem ég las og jafnframt fyrstu bækurnar sem ég las á ensku. Ég hafði séð mini-seríuna sem gerð var eftir þessari bók með Tim Curry í aðalhlutverki þegar ég var unglingur ég man eftir því að mér fannst hún rosalega góð og ógnvekjandi. Þá hlaut auðvitað bókin að vera betri, er það ekki?.

Ég hlustaði á bókina sem hljóðbók, hélt að hún yrði ágæt stemmningsbók yfir svörtustu vetrardagana. Það hefur eitthvað með upplifun mína af bókinni að gera að ég hlustaði á hana frekar en að lesa en ég kem að því á eftir.

Eins og flestar bækur Stephen King gerist þessi í smábæ í Maine fylki Bandaríkjanna. Hún segir frá vinahópi og hvernig þessir vinir, sex strákar og ein stelpa, bjarga íbúum bæjarins tvisvar frá ógn, fyrst þegar þau eru börn og svo aftur 27 árum seinna. Ógnina, sem stafar frá Því eða It, sigra þau með því að „standa saman“ og „halda í sakleysið og barnlega trúnna“, þ.e. með því að trúa því að þau geti það þá geta þau það. Mjög frumlegt.

Sagan er sögð á frekar ruglingslegan hátt þar sem frásögnin frá hetjudáðinni sem vinirnir unnu sem börn er samofin þeirri úr nútímanum (eða 1985) þegar þau snúa aftur til að endurtaka leikinn. Kaflarnir hoppa fram og til baka og stundum er maður svolitla stund að átta sig á því hvort tímabilið er um að ræða. Kannski er það þeim sem les hljóðbókina að kenna þar sem hann breytti rödd sinni mjög lítið til að greina á milli barna- og fullorðins útgáfa af persónunum.

Stephen King hefur einn stóran galla á sér sem rithöfundur og gallinn er sá að hann getur verið ansi langorður og eins og hann annað hvort sé ekki með nógu góðan ritstjóra eða hann sé bara kominn á það stig að þurfa ekki að hlusta á svoleiðis fólk en allavega er eins og hann gleymi sér oft í löngum hliðarsporum útfrá sögunni. Til dæmis þarf hann að segja okkur nákvæmlega frá þakinu sem rifnaði ofan af bankanum í óveðrinu sem geysaði á meðan vinirnir voru niðri í holræsinu, hvar peningarnir enduðu sem fuku og hvaða áhrif þeir höfðu á þann sem fann þá. Án þess að þetta hafi neina þýðingu fyrir söguna! Og bókin er meira en þúsund blaðsíður! Ekki segja mér að það hafi ekki verið hægt að skera eitthvað af þessu niður.

Það var fleira við bókina sem truflaði mig en ég ætla bara að minnast á eitt til viðbótar. Í sögunni sem gerist þegar vinirnir voru börn endar eina stelpan í hópnum með því að stunda kynlíf með öllum strákunum, einum á eftir öðrum á meðan hinir bíða hjá, að vísu í algeru myrkri og þess vegna án þess að sjá neitt, og þessu er öllu lýst mjög nákvæmlega! Og af hverju var hún að þessu? Ég náði því engan vegin, eitthvað með að hjálpa þeim að rata aftur út úr holræsunum sem þau voru í. Þarna fannst mér eiginlega eins og King væri að fá útrás fyrir einhverja óra frekar en að leggja neitt til sögunnar.

Ég var semsagt ekki hrifin af þessari. Heimskuleg, langdregin og uppgjörið við skrímslið í lokin uppfylti ekki væntingar. Ég var heldur ekki hrifin af persónusköpuninni eða persónuþróuninni á margan hátt en ætla ekki að fara meira útí gallana á þessari bók. Hún var allavega ekki góð. Látum þar við sitja.

Lengsti pósturinn minn hingað til og neikvæðasti líka. Það er oft auðveldara að segja eitthvað neikvætt en jákvætt.

Bók 9: Mythago Wood eftir Robert Holdstock

Mythago-WoodÞessari bók mælti sambýlismaður minn með en hann les mikið af fantasy bókum.

Bókin gerist í Herefordshire á Englandi á fimmta áratug 20 aldarinnar. Stephen Huxley snýr aftur á ættaróðalið frá stríðinu. Þar er bróðir hans fyrir en hann hverfur svo fljótlega inn í nærliggjandi skóg, Ryhope skóginn. Það kemur í ljós að skógurinn er töfrum gæddur og fullur af svokölluðum „mythagos“ en þeir eru holdgervingar ævintýrapersóna. Stephen verður ástfanginn af einum mythagoinum, Guiwenneth og þau taka upp samband. Þegar Guiwenneth hverfur svo líka inn í skóginn þarf Stephen að halda inn á eftir henni til að reyna að bjarga henni.

Bókin kom út árið 1984 og mér fannst hún svolítið skemmtilega gamaldags. Guiwenneth er frekar týpisk „damsel in distress“ eða, á íslensku, „hjálparlaus kona í vandræðum“ og hefur ekki mikla dýpt en þetta er enda ekki hennar saga. Ég hlustaði á þessa bók sem hljóðbók og það var mjög róandi að hlýða á breskuna í þeim sem las hana, ef ekkert annað. Krúttleg ævintýrasaga en ég veit ekki hvort ég hef áhuga á að lesa fleiri bækur í seríunni sem þessi var upphafið að, hún greip mig ekki það mikið.