Bók 19: How to Be a Woman eftir Caitlin Moran

how to be a womanÞessi bók hefur fengið mikla umfjöllun og átti að vera svo fyndin svo ég ákvað að tjékka á henni. Fékk mér hana á Kyndilinn.

Moran fjallar í bókinni um ævi sína í gengum linsu feminismans. Í rauninni er þetta gamanrit, feministabók og ævisaga.

Moran elst upp með sjö systkinum í borginni Wolverhampton á Englandi. Ung fer hún svo að vinna sem blaðamaður hjá tónlistarblaðinu Melody Maker. Hún giftist á einhverjum tímapunkti og eignast tvær dætur með manninum sínum.

Allt þetta fáum við að lesa um og meira til í gegnum skemmtilegar sögur Moran. Hún fjallar á sama tíma um blæðingar, brjóst, líkamshár, barneignir og allt þetta „kvenna-dót“ á mjög fyndinn hátt. Þetta er samt ekki bara grín, á einum stað lýsir hún fóstureyðingu sem hún fór í á svo nákvæman og grafískan hátt að mig fór að svima í lestinni og ég varð að leggja Kyndilinn frá mér og setja höfuðið á milli hnjánna.

Ég var ekkert yfir mig hrifin af þessari bók en hún var ágætis lestarlesning á leiðinni í og úr vinnu, svona fyrir utan þetta eina skipti meina ég.

Auglýsingar

Bók 18: Karnas arv eftir Herbjørg Wassmo

karnas arv 2608Herbjørg Wassmo er einn af þekktari rithöfundum Noregs og skrifaði meðal annars bækurnar Húsið með blindu glersvölunum og Þögla herbergið sem komu út á íslensku á sínum tíma og eru vinsælar á notuðum bókamörkuðum landsins.

Ég fékk þessa bók að láni frá einum kennara mínum sem kenndi mér á námskeiði þegar ég var frekar ný í Noregi. Ég bað hana um ráð, hvaða norsku bækur ég ætti að lesa og hún lánaði mér heilan bókaflokk sem hún sagði vera uppáhalds bækurnar sínar. Þetta er þriðja bókin í bókaflokknum en fyrsta bókin heitir Dinas bok og hefur verið gerð að kvikmynd sem var kölluð I Am Dina

Bækurnar segja frá Dínu og afkomendum hennar sem búa langt og afskekkt uppí norður Noregi á nítjándu öld. Eftir að hafa stautað mig fram úr fyrstu tveimur bókunum í seríunni sem eru skrifaðar mikið til á norður-norskri málýsku og fjölluðu fyrst um Dinu sjálfa og svo um son hennar Benjamin, er ég komin að sögunni um Körnu sem er barnabarn Dinu. Karna er barn mikið til af sögunni og hoppum við fram og til baka frá að sjá atburði í gegnum hennar augu eða í gegnum alvitran sögumann. Karna er haldin flogaveiki sem hefur áhrif á hvernig fólk sér hana og á eftir að setja stóran svip á atburði sögunnar.

Mér finnst yfirleitt gaman að svona fjölskyldusögum en eitthvað við þessa bók gerði það að verkum að það tók mig marga mánuði að klára hana. Það var bara einhvernveginn ekkert við hana sem dró mig til sín svo ég tók í sífellu upp aðrar bækur umfram hana. Ég er samt af þeirri manngerð sem verður helst að klára þær bækur sem hún byrjar á, nema það sé eitthvað sem mér hreinlega finnist óþolandi við bókina (halló, Confederacy of Dunces!). Þess vegna er ég fegin að ég kláraði bókina og hún var svosem ekki leiðinleg, bara ekkert rosalega áhugaverð.

Bók 17: The Sense of an Ending eftir Julian Barnes

Julian-Barnes-The-Sense-of-an-EndingBókin hlaut Man Booker verðlaunin árið 2011 og svo fékk ég hana í jólagjöf núna frá mjög góðum vinum. Það var því ekki seinna vænna en að skella henni í sig.

Bókin segir frá breska millistéttamanninum Tony og lífi hans þegar hann er kominn yfir miðjan aldur og horfir yfir farinn veg. Tony er fráskilinn og á eina uppkomna dóttur. Atburðirnir sem hann rifjar upp snúast að miklu leyti í kringum einn besta vin hans sem var klárastur af öllum í vinahópnum en framdi sjálfsmorð á unga aldri.

Það er auðvitað miklu meira spunnið í þessa bók en mér tekst að draga saman í einni stuttri málsgrein en ég geri það viljandi að reyna að hafa samantektina um bækurnar sem ég les alltaf sem styrsta. Það er auðvelt að lesa sér til um söguþráð bóka víða á netinu.

Hún er ekki þykk, þessi bók (undir 200 blaðsíðum) en það er ekki beinlýnis söguþráðurinn sem knýr hana áfram. Það að hún sé sögð frá sjónarhorni mannsins sem hefur þegar upplifað þetta og þegar lifað sínu lífi að mestu leyti hefur mikið að gera með tilfinninguna sem maður situr uppi með eftir lesturinn. Sögumaðurinn segir það sjálfur – það að giftast, vinna vinnuna sína og standa sig vel i henni, eignast barn sem maður elur upp og skilar svo útí veröldina og skilja við makann – það sé í raunninni eitt stykki ævi og ævin hans í hnotskurn. Hann var kannski ekki bestur í neinu eða skaraði beinlýnis framúr en kannski er það einmitt það sem gerði það að verkum að hann hefur „haldið út“ ævina í staðinn fyrir að stinga af úr henni eins og vinur hans gerði þegar hann tók sitt eigið líf.

Inní bókina fléttast svo að sjálfsögðu ýmsir atburðir, ekki eins og þetta sé ein djúp pæling um lífið og tilveruna, en ég get eindregið mælt með þessari.

Bók 16: Ender’s Game eftir Orson Scott Card

Enders GameÞessi á að vera með betri vísindaskáldsögum og vann hún Hugo verðlaunin árið 1986. Hugo verðlaunin eru með virtustu verðlaununum sem veitt eru fyrir vísindaskáldsögur. Auk þess er víst verið að kvikmynda þessa sögu og ég geri mér alltaf far um það að lesa bækurnar, ef ég hef minnsta áhuga á þeim, áður en ég sé kvikmyndirnar sem gerðar eru eftir þeim.

Bókin fjallar um Ender og segir sögu hans frá því hann er sex ára og til fullorðinsaldurs. Jörðin lenti í stríði við ákveðin kynþátt geimvera fyrir sextíu árum og vann það stríð fyrir heppni og herkænsku eins manns. Núna er verið að þjálfa upp hermenn til þess að berjast í næsta stríði, ef til þess kemur, og Ender er valinn sem einn af þeim efnilegustu. Við komumst fljótt að því að hann er jafnvel talin besta von mannkyns og sú síðasta til þess að vinna næsta stríð. Hvernig honum er svo komið til manns og hann þjálfaður til þess að leiða herinn á meðan hann er enn barn og án þess að brjóta hann alveg niður undir álaginu er í raun og veru það sem bókin fjallar um.

Þetta er alveg svakalega skemmtileg bók. Ég reif hana í mig, las hana á Kyndlinum í lestinni á leið í og úr vinnu og hún gerði það að verkum að mig hlakkaði til ferðanna, fannst leiðinlegt að vera komin heim svo ég gæti ekki haldið áfram að lesa. Mér leiðast vanalega stríðslýsingar og stríðsatriði bæði í bókum og kvikmyndum en einhverra hluta vegna heillaði þessi bók mig uppúr skónum. Stríðsæfingarnar eru allar í þyngdarleysi og gæti það átt sinn þátt í því en mannlegi þátturinn er líka svo gífurlega stór að hann vegur mikið upp á móti. Það gæti jafnvel verið að ég kíkti á framhöldin af þessari bók, af því að þau voru víst nokkur.

Bók 15: Tenth of December eftir George Saunders

9780812993806_custom-f9472c743ae546a0b19bf6a1c8ce3a89971d1a83-s6-c10Þessa bók, eins og svo margar aðrar, heyrði ég talað um á NPR en hún fékk einnig mjög góða dóma í The New York Times Magazine þar sem hún var kölluð besta bókin sem maður ætti eftir að lesa á árinu 2013.

Þetta er smásagnasafn sem inniheldur tíu mislangar sögur. Ein þeirra er t.a.m. bara ein blaðsíða. Sögurnar hafa sumar hverjar eitthvað fantasý innihald en aðrar eru „venjulegar“. Mér fannst  allar sögurnar mjög skemmtilegar en sérstaklega heilluðu mig sögurnar, Victory Lap, Escape from Spiderhead og The Semplica Girl Diaries. Þær tvær síðarnefndu eru úr fantasý „genre-anum“ og eru dásamlega undarlegar.

Ég les venjulega ekki mikið af smásögum, finnst það oft hálfgerð tímasóun þar sem maður fær ekki eins mikla sögu og er því eins og maður sé hálfgert að eyða tíma sínum í að kynnast persónum án þess svo að fá að vita mikið um þær eða afdrif þeirra. Ég verð að viðurkenna að oftar en einu sinni þegar ég var búin með sögu í bókinni hugsaði ég einmitt að ég vildi óska að hann myndi lengja söguna uppí heila bók. Mig langaði einfaldlega að vera lengur með persónunum og fá að vita meira. Kannski er það samt hrós fyrir hversu góðan heim honum tekst að skapa?

Ég veit ekki hvort þetta verður besta bók ársins 2013 fyrir mig. Held að ég haldi mig við það að lesa áfram skáldsögur í fullri lengd.

Bók 14: Marbles eftir Ellen Forney

marblesÞetta er grafísk skáldsaga sem heitir fullu nafni Marbles: Mania, Depression, Michelangelo, & Me. A Graphic Memoir. Ég heyrði fjallað um bókina á NPR þar sem lofsömum orðum var farið um hana og tók hana þess vegna á bókasafninu.

Í bókinni segir teiknisagnahöfundurinn Forney frá því þegar hún var greind með geðhvarfasýki (á ensku: manic depression eða bipolar disorder). Hún heldur ekki aftur af neinu og segir þannig mjög opinskátt frá fyrstu geðhæðinni og svo lægðinni sem fylgdi, greiningu, leitinni að réttri lyfjagjöf og hvernig hún lifir svo með sjúkdómnum í dag. Hún gerir þetta svo að sjálfsögðu allt á mjög skemmtilegan og oft fyndin máta. Þessi bók var bæði mjög skemmtileg og mjög upplýsandi.

Ég dáist alltaf að höfundum sem skrifa um sjálfan sig, og þetta segi ég sem ævilangur dagbókaskrifari. En það hlýtur að vera mjög erfitt að fá fjarlægðina sem er nauðsynleg til þess að sjá gjörðir og tilfinningar manns sjálfs og lýsa þeim á hátt sem er skemmtilegur fyrir aðra að lesa. Þetta tekst Forney mjög vel.

Það kom mér á óvart við lestur þessarar bókar hversu alvarlegt þetta heilkenni er. Samkvæmt Forney verða sveiflurnar nefninlega sífellt verri eða öfgakenndari eftir því sem aðilinn er lengur án lyfja. Mjög oft getur það leitt til sjálfsmorða. Stundum heyrir maður um fólk sem þjáist af þessu heilkenni en er ekki að taka lyfin sín, eins og t.d. í kvikmyndum (mér dettur í hug persóna Bradley Coopers í Silver Linings Playbook) og núna þegar ég heyri um svoleiðis verð ég frekar pirruð. Eins og það eigi að vera bara allt í lagi og að málin muni reddast án þess að einstaklingurinn taki lyfin sín.

Ég lagði sem sagt bókina frá mér einhverju vitrari um þennan sjúkdóm og ég skemmti mér á meðan ég lærði. Er það ekki einmitt bestu bækurnar, þær sem kenna manni eitthvað en láta mann hafa gaman að því?

Bók 13: Mister Pip eftir Lloyd Jones

mr-pipÞessi bók fékk Man Booker verðlaunin 2007 og fékk auk þess mjög góð meðmæli frá bestu vinum.

Bókin segir frá atburðum á Bougainville eyju sem er hluti af Papua Nýju Gíneu klasanum í gegnum augu eins þorpsbúans, stelpunni Matildu. Borgarastríð ríkir á eyjunni þegar bókin byrjar og flestallir drengirnir úr þorpinu gengnir til liðs við það. Eini hvíti maðurinn á eyjunni er fenginn til þess að taka að sér skólahald. Hann les fyrir börnin úr Great Expectations eftir Charles Dickens, þar sem aðalsöguhetjan heitir einmitt Pip, og kynnir þau þannig fyrir öðrum heimi og mátti bókmennta. Síðar í sögunni stígur Pip útúr bókinni og tilvist hans hefur afdrifarík áhrif á örlög þorpsbúanna.

Þegar ég var nýbyrjuð á þessari bók áttaði ég mig á því að ef ég hefði einhvern áhuga á því að lesa Great Expectations þá ætti ég að gera það fyrst. Ég lagði því bókina til hliðar á meðan. Ég er fegin að ég las bók Dickens fyrst þar sem þessi bók vísar mikið í hana og segir okkur meira að segja hvernig sagan endar.

Þessi bók er mjög tvískipt, fyrri helmingurinn gerist á eyjunni í sakleysi barnæskunnar og seinni helmingurinn sýnir okkur hvernig þeir tímar enda og hvað gerist á eftir. Ég hafði mjög gaman af henni, hún sýnir manni part af heiminum sem ekki er mikið fjallað um og mótsagnirnar í henni heilluðu mig. Fyrri helmingur hennar er nefninlega alger andstæða seinni helmingsins og hef ég heyrt að það trufli marga. Mér fannst það hins vegar koma mjög vel út því þó svo að það stuði mann þá er það einmitt tilgangurinn, lífið er ekki eintómur dans á rósum þó svo að okkur á vesturlöndum finnist að það eigi að vera það.

Myndi hilklaust mæla með þessari fyrir þá sem hafa gaman af að kynna sér fjarlæg heimshorn í gegnum skáldskap.