Bók 23. Hvítfeld. Fjölskyldusaga eftir Kristínu Eiríksdóttur

hvitfeld-200Þessi bók tilheyrði jólabókaflóðinu í fyrra og ég heyrði góða hluti um hana. Keypti mér hana því í kiljuútgáfu þegar ég kom heim til Íslands yfir páskana.

Sagan segir frá Jennu, íslenskri konu sem er búsett í Bandaríkjunum. Öll fjölskyldan hennar býr á Íslandi en hún hefur ekki komið þangað í mörg ár. Hún á dóttur með Ameríkana sem við vitum lítið um. Dauði systur hennar Jennu veldur því svo að hún þarf að koma heim til Íslands og takast þar á við fjölskyldu sína og vandamálin sem ullu því að hún flúði úr landi til að byrja með.

Ásamt því að kynnast í bókinni Jennu og baksögu hennar fáum við líka frásagnir af æsku kynslóðanna tveggja á undan henni (foreldra og amma og afa). Enginn átti beinlínis auðvelt líf, né voru þau fyrirmynda manneskjur en það er engu að síður, eða kannski einmitt þess vegna, mjög skemmtilegt og áhugavert að lesa um þau.

Ljótleikinn er allsráðandi í bókinni og Kristín leikur sér skemmtilega með hann. Þessi bók er annað dæmi um óáreiðanlegan sögumann, eins og Gone Girl sem ég fjallaði um fyrir nokkrum vikum. Kristínu tekst að blekkja lesandann alveg fram og aftur með því að nota sér þann stíl og ég féll fyrir því næstum því hvert einasta skipti! Mjög vel gert og mjög áhugaverð og skemmtileg saga.

Auglýsingar

Bók 22: Hjarta mannsins eftir Jón Kalman Stefánsson

hjarta-mannsinsÞetta er þriðja bók í þríleik Jóns Kalmans um Strákinn í Plássinu og fólkið í lífi hans. Hinar tvær, Himnaríki og helvíti og Harmur englanna, voru æðislegar svo ég bjóst ekki við neinu öðru af þessari.

Ég var heldur ekki svikin. Harðindin á Íslandi halda áfram, veðrið og fjöllin hvíla yfir fólkinu og lífið er erfitt fyrir flesta. Jóni tekst samt að segja frá því á svo litríkan og fallegan hátt að það er aldrei leiðinlegt. Strákurinn er hreinn og saklaus, ekki drjúgur til handverks en langar til að lesa, læra, verða eitthvað annað en flestir í kringum hann og ótrúlegt en satt býðst honum tækifæri til þess. En svo gerist það að hjartað hans hefur aðrar hugmyndir og hann gæti þurft að velja á milli venjulegs lífs í sveitinni, lífi með konu og börnum, harðindum og ást, og lífs án ástar en með fleiri tækifærum.

Mér finnst frekar erfitt að fjalla um þessa bók þar sem söguþráðurinn skipti mig minnstu máli fyrir upplifunina af henni. Það sem vóg þyngra var tungumálið, frásagnarmátinn, stíllinn og hvernig allt þetta kom saman, ásamt söguþræðinum að sjálfsögðu, til að koma efninu til skila. Mér fannst endirinn alveg sérstaklega flottur og í rauninni fullkomið dæmi um hvernig áðurnefndir þættir koma saman til þess að hafa hámarks áhrif á lesandann.

Ég læt hér staðar numið en hvet alla sem ekki hafa tekið upp þessar bækur að gera það hið snarasta. Ég held að ég geti sagt án nokkurs efa að þessar bækur eigi eftir að verða partur af klassískum íslenskum bókmenntum, þ.e. þær munu fara inn í kanónuna sem ber nafnið “Íslenskar bókmenntir”, unglingum framtíðarinnar til armæðu og yndisauka.

Bók 21: The French Lieutenant’s Woman eftir John Fowles

FrenchÞessa bók hef ég átt langa lengi í snjáðri kiljuútgáfu með mynd af Meryl Streep framan á, en hún lék einmitt í kvikmyndaútgáfunni af þessari sögu. Mér er venjulega illa við kvikmyndaútgáfur af bókum en þessa fann ég einhversstaðar notaða, ábyggilega í Góða hirðinum eða Kolaportinu, og hafði því ekki val um aðra. Ég býst við því að ég hafi upphaflega heyrt um bókina þegar Time tímaritið valdi hana árið 2005 sem eina af 100 bestu skáldsögunum á enskri tungu.

Bókin kom út árið 1969 en segir frá atburðum sem áttu að hafa átt sér stað á 19. öld. Sarah Woodruff var smánuð með því að verða ástfangin af Frakka sem kom í ljós að var ekki heiðvirður maður og er í kjölfarið útskúfuð úr samfélaginu. Hún biðst samt ekki afsökunar á neinu og er næstum eins og henni þyki þetta líf betra en hinn kosturinn. Charles er trúlofaður Earnestinu, ríkri millistéttar stúlku, en heillast af Söruh og klípunni sem hún er í. Leiðir þeirra liggja saman og að lokum gerist hið óumflýjanlega…

Eða hvað? Fowles gefur okkur nefninlega tvo mismunandi endi á sögunni og erum við þar komin að því sem er áhugaverðast við þessa bók. Fowles gerir í því að brjóta niður fjórða vegginn (ef það er til slíkt fyrirbæri í bókmenntum eins og á sviði og í kvikmyndum) með því að ávarpa okkur lesendur og fjalla um það hvernig hann eigi að skálda upp framhaldið, hvað hann eigi að láta persónurnar gera hér og svo framvegis. Áður en við komum að endunum tveimur kynnir hann meira að segja sjálfann sig til sögunnar sem persónu sem kastar uppá peningi til þess að ákveða örlög aðalpersónanna. Þetta finnst mér það skemmtilegasta við bókina, sagan er ekkert stórkostlega frumleg en formið er mjög sérstakt og gerir bókina eftirminnilega.

Mér skilst á bróður mínum að þetta sé líka gert á einhvern sniðugan hátt í kvikmyndaútgáfunni en ég hef ekki séð hana. Að myndavélar séu sýndar eða einhvernveginn látið sjást að um kvikmynd sé að ræða. Spurning um að sjá myndina núna en ég sé á IMDB.com að á móti Meryl Streep leikur Jeremy Irons og að myndin var tilnefnd til fjögurra Óskarsverðlauna árið 1982, meðal annars Meryl Streep sjálf fyrir bestan leik í aðalhlutverki.

Bók 20: Gone Girl eftir Gillian Flynn

8442457Þessi bók hefur verið mikið umtöluð og vinsæl að undanförnu. Auk þess var hún tilnefnd til Women´s Prize for Fiction (sem hét áður Orange Prize) núna í ár en þau eru meðal virtustu bresku bókmenntaverðlaunanna.

Bókin er sambland af krimma og sambandssögu og hefst þegar Amy hverfur af heimili sínu við undarlegar aðstæður. Maðurinn hennar, Nick, þarf að reyna að komast að því hvað kom fyrir hana en í svona málum er það oft eiginmaðurinn sem liggur fyrst og fremst undir grun. Inn á milli kaflanna um Nick fáum við svo dagbókarfærslur Amy undanfarinna ára sem sýna oft samband þeirra í öðru ljósi en við skiljum af frásögn hans.

Maður verður mjög fljótt var við að Nick er að leyna einhverju en hverju? Og er hægt að vera eins fullkomin eiginkona og Amy virðist vera í dagbókarfærslum sínum? Óáreiðanlegir sögumenn geta verið áhugaverðir. Mér finnst skemmtilegt hvernig þeir láta mann efast um allt í sögunni og loksins þegar maður gleymir að efast kemur í ljós að maður hefur látið blekkjast einu sinni í viðbót.  Mér fannst líka áhugavert að lesa um hvernig þau tvö, Amy og Nick, höfðu upplifað suma atburði í sambandinu á allt annan hátt.

Þetta var mjög skemmtileg og öðruvísi bók. Næstum því krimmi en samt ekki alveg. Ég er búin að mæla með þessari við alla sem ég þekki sem hafa minnsta áhuga á bókum.