Bók 28: Mr. Penumbra’s 24-Hour Bookstore eftir Robin Sloan

penumbraÉg man satt best að segja ekki hvar ég heyrði um þessa, ábyggilega rekist á hana hjá einhverjum sem ég tengist á Goodreads og fundist nafnið heilla. Það kom svo í ljós að bókin hefur vakið mikið umtal og er mjög vinsæl. Ég fékk mér hana sem rafbók og las á Kyndlinum.

Bókin fjallar um Clay sem er nýorðinn atvinnulaus í kjölfar efnahagskreppunnar og rekst á atvinnuauglýsingu í búðarglugga í skringilegri bókabúð sem er opin allan sólarhringinn. Bókabúðin hefur hillur sem ná alla leið uppí loft, stappaðar bókum og þar sem hann er svo laginn við stigann sem þarf að nota til að ná á efstu hillurnar er honum boðin næturvaktin í búðinni. Stöðunni fylgja samt hin undarlegu fyrirmæli að líta alls ekki inní bækurnar. Clay fer fljótt að verða var við undarlega viðskiptavini sem þurfa aldrei að borga fyrir bækurnar sínar heldur skipta einfaldlega sínum eintökum fyrir önnur. Hann lætur að lokum freistast og kíkir inní eina bókina og upp hefst þá spennandi atburðarrás sem hefur eins konar “quest” yfirbragð, enda aðalsöguhetjan fyrrverandi hlutverkaspils-nörd (eins og Dungeons & Dragons en Sloane kallar það eitthvað annað), þar sem beita þarf mörgum brögðum og leita víðsvegar aðstoðar.

Inní söguna blandast nýjasta tækni og vísindi og Google kemur t.d. mikið við sögu. Mér fannst þeir partar skera sig frekar mikið útúr yfirbragðinu sem fylgdi frásögnum úr bókabúðinni sjálfri og…ja öðru sem ég vill ekki spilla með því að segja frá, og ekki endilega til hins betra.

Mér fannst þessi bók samt mjög skemmtileg en kannski ekki alveg í nógu miklu innra samræmi. Ég er líka komin með frekar mikla leið á svona tækni-skáldsögum eins og Super Sad True Lovestory og Snow Crash (sem reyndar báðar eiga að gerast í framtíðinni) svo kannski var það þess vegna sem tæknipartarnir í þessari heilluðu ekki. Þetta er góður bóka-þriller, mjög grípandi og aldrei leiðinlegur. Ætli ég hafi ekki bara verið búin að ímynda mér kósí bók um bækur sem gerist bara í kósí bókaumhverfi?

Auglýsingar

Bók 27: Sharp Objects eftir Gillian Flynn

9780307341549_p0_v4_s260x420Þetta er fyrsta bók Gillian Flynn, höfundar Gone Girl en þá bók las ég í apríl og var svo hrifin af. Þess vegna fékk ég mér Sharp Objects á Kyndilinn.

Bókin fjallar um Camille, blaðamann í Chicago sem er send til síns gamla heimabæjar til þess að fjalla um tvö morð á ungum stúlkum sem átt hafa sér þar stað með stuttu millibili. Camille hefur ekki heimsótt bæinn í fleiri ár og við sjáum fljótt hvers vegna það er. Móðir hennar er ekki sérstaklega ástrík svo ekki sé meira sagt, stjúpfaðirinn frekar undarlegur og hálfsystirin alveg heill kafli útaf fyrir sig. Camille þarf að búa á æskuheimilinu af því að blaðið hennar er ekki beinlýnis fyrsta flokks og hefur því ekki efni á öðru. Svo er það bara spurningin hvort hún muni þrauka þennan bæ og allt sem honum fylgir nógu lengi til að leysa málið.

Flynn er alveg ótrúlega góð í því að setja upp alveg ákveðið og frekar óhugnalegt andrúmsloft í bókunum sínum. Manni líður eiginlega hálf illa á köflum við lestur þessarar en samt er maður alltaf sólginn í meira. Camille er mjög áhugaverð persóna, mér fannst samband hennar við lögreglumanninn sýnt á mjög flottan hátt og hún kemur út úr öllum sínum samskiptum við aðrar persónur sem mjög sannfærandi manneskja. Mjög rugluð manneskja en sannfærandi þrátt fyrir það.

Ég er eiginlega á því að þetta sé betri bók en Gone Girl. Ég missti móðinn á köflum í Gone Girl þegar mér fannst hlutirnir vera að fara of afgerandi á einn veg (segi ég mjög óljóst til þess að spilla engu) en hérna var ég alltaf jafn spennt að halda áfram að lesa. Manni tekst líka að fylgjast með málinu verða skýrara og skýrara, það kemur ekkert út úr lausu lofti til að leysa hlutina á síðustu köflunum eins og gerist stundum í verri krimmum. Ég er ekki einu sinni viss um að ég myndi flokka þetta sem krimma þar sem persónusköpunin skiptir svo miklu og glæpurinn þjónar mikið til því hlutverki að varpa meira ljósi á hana. Kannski meira svona “literary thriller” (bókmennta tryllir?).

Núna er víst búið að ákveða að gera myndir bæði eftir þessari bók og Gone Girl. Reese Witherspoon ætlar að leika stúlkuna sem er horfin í Gone Girl, að mér skilst. Ég get ekki ímyndað mér að myndirnar muni standa undir andrúmsloftinu sem er skapað í bókunum en maður veit svo sem aldrei. Hvað sem því líður get ég ekki beðið eftir því að lesa meira eftir Gillian Flynn.

Bók 26: Too Much Happiness eftir Alice Munro

Too Much HappinessAf einhverri ástæðu tók ég þessa bók úr hillunni um daginn en hana hafði ég keypt á bókaútsölu núna í vetur. Þetta er smásagnasafn, eins og allar bækur Munro. Ég var nýbúin með bók og eiginlega að lesa aðra sem ég var ekki í stuði fyrir akkúrat þá stundina. Ég hugsaði með mér að það gæti verið ágætt að lesa eina eða tvær smásögur til að hreinsa palletuna, eins og á milli rétta á fínum veitingastað, ég ætlaði ekkert endilega að klára bókina neitt á næstunni. Ég hafði áður lesið eitt smásagnasafn eftir Munro, Hateship, Friendship, Courtship, Loveship, Marriage, fyrir langa löngu og minntist þess að hafa fundist það gott. Framan á þessari bók stendur auk þess að Munro hafi hlotið Man Booker International Prize árið 2009 en þau eru veitt fyrir heildarframlag til bókmenntanna.

Þetta var allt önnur upplifun og smásögur af allt öðrum geira en í áður nefndu smásagnasafni eftir George Saunders (bók númer 15 í ár). Sögurnar hans Saunders voru meira svipmyndir, gáfu manni eitt ákveðið atriði eða atburð úr lífi eða atburðarás og þess vegna langaði manni alltaf að lesa áfram, að hann skrifaði heila bók um hverja sögu og gæfi manni þannig meira. Ég hélt þegar ég las þessa bók að það væri ábyggilega merki um góðar smásögur, er ekki sagt á ensku „Always leave them wanting more“?

Núna veit ég betur. Munro gefur okkur 10 sögur á rúmlega 300 blaðsíðum, að meðaltali er hver saga því um 30 blaðsíður. Stóri munurinn á sögum hennar og Saunders er að sögurnar hennar eru einhvernveginn heilar, þær segja heila sögu og eftir að maður er búinn með hverja þeirra er maður fullnægður. Maður hefur fengið sögu sem skilur eitthvað eftir sig og er með byrjun, miðju og endi. Þær eru bara svakalega góðar.

Ég tek til baka það sem ég sagði í póstinum um smásagnasafn George Saunders, að ég ætlaði að halda mig við skáldsögur í fullri lengd í stað smásagna í framtíðinni. Ef smásögur geta verið meira eins og þessar og ekki eins og hans Saunders þá er ég til í fleiri. Ég er meira að segja nú þegar búin að kaupa mér nýjustu bókina hennar Munro, Dear Life, sem kom út í fyrra. Hef heyrt góða hluti um hana sem kemur ekki á óvart.

Bók 25: Ben in the World eftir Doris Lessing

n31390Doris Lessing hlaut Nóbels verðlaunin í bókmenntum árið 2007. Ég hafði, satt að segja, aldrei heyrt um hana fyrir það en gerði mér far um að tékka á henni eftir á. Þessi bók er pottþétt í hópi aðgengilegri bóka Lessing en ég hef ekki ennþá lagt í meistarastykkið hennar, sem ég á í kassa heima á Íslandi, The Golden Notebook.

Ben in the World er framhald af bókinni The Fifth Child sem fjallaði um ung og hamingjusöm hjón sem dreymdi um stóra fjölskyldu. Allt virtist ganga að óskum þar til fimmta barnið, Ben, kom í heiminn og augljóst var frá byrjun að það var eitthvað mjög undarlegt við hann. Ég man ekki hvort orðið „illur“ var nokkurntímann notað en það var samt tilfinninginn sem gefin var.

Í þessari bók þarf Ben að standa á eigin fótum og maður fær söguna út frá hans sjónarhorni í stað móður hans eins og í fyrri bókinni. Við kynnumst Ben í gegnum fólkið sem verður á vegi hans úti í heimi og fáum allt aðra mynd af honum en áður. Núna er hann alls ekkert illur, bara frekar villtur (á báða vegu sem hægt er að skilja það orð) og einn. Að lokum snýst bókin svo um það að komast að því hvað Ben er og hvar hann heyrir til í heiminum.

Ég hlustaði á þessa sem hljóðbók og fannst hún mjög þæginleg sem slík. Veit ekki hvort hún hafði beinlýnis nein áhrif á mig öfugt við fyrri bókina, hún var í rauninni mestmegnis bara afþreyging.

Bók 24. The Unlikely Pilgrimage of Harold Fry eftir Rachel Joyce

86.Rachel Joyce-The Unlikely Pilgrimage Of Harold FryÞessi bók var á lengri listanum fyrir Man Booker verðlaunin 2012 og þannig heyrði ég um hana. Þegar ég sá hana svo á útsölu í norskri bókabúð skellti ég mér á hana og las í lestunum á leið í og úr vinnu.

Bókin fjallar um Harold Fry. Harold er kominn á eftirlaun og býr syðst í Englandi með konunni sinni. Þau eiga einn son sem er uppkominn og mikið fjarverandi. Harold hefur alltaf verið millimaður, ekki sóst eftir frama eða ævintýrum. Einn góðan veðurdag fer hann með bréf í póst til dauðvona fyrrverandi samstarfskonu sinnar en endar með að hætta við að póstleggja það og halda fótgangandi áleiðis í heimsókn til hennar. Það sem er sérstakt við þá gönguferð, og ástæðan fyrir því að í titli bókarinnar er minnst á pílagrímsför, er að vinkonan á heima eins langt norður í Englandi og mögulegt er, og þar með eins langt frá Harold og hægt er án þess að vera komin yfir í Skotland. Harold er þess vegna að leggja í för yfir allt England og án þess að hafa nokkuð undirbúið sig undir ferðina.

Það er ekki hægt að segja að þetta sé sérlega viðburðarrík bók en hún er þó aldrei leiðinleg. Harold gerir margt upp við sig í þessari ferð, meðal annars hjónabandið sitt sem hefur verið mjög stirt lengi sem og samband sitt við son sinn og auðvitað samstarfskonuna sem liggur fyrir dauðanum. Á köflum fer bókin að minna aðeins á atriðið í Forrest Gump þar sem Forrest er að hlaupa endalaust og fólk fer að taka sér hann til fyrirmyndar og líta á hann sem einhverskonar spámann en það er svo gert mjög skemmtilega upp svo það sker sig frá Hollywood myndinni.

Ég var ekki beinlýnis yfir mig hrifin af þessari en hún var samt mjög góð. Það er ekki hægt að finna neitt að henni, hún bara hreif mig ekki eins mikið og margar aðrar og kallaði ekki á mig þegar ég lagði hana frá mér eins og bestu bækurnar gera.