Bók 33: The Sweetness at the Bottom of the Pie eftir Alan Bradley

6218281Þetta er fyrsta bókin í Flavia de Luce seríunni hans Bradleys sem er núna komin uppí sex bækur. Ástæðan fyrir því að ég ákvað samt sem áður að taka hana upp, þrátt fyrir þessar yfirþyrmandi sex bækur, var sú að Simon Savidge mælti svo sterklega með seríunni og sagði þær vera svona kósý morð sögur. Þegar einhver segir kósý morð þá hugsa ég um Miss Marple sögurnar hennar Agöthu Christie sem ég hef nú reyndar ekki lesið mikið af en mér datt í hug að þetta gæti verið ágætis lestarlesning.

Flavia de Luce er 11 ára og býr með föður sínum og tveimur eldri systrum í risastóru ættaróðali þeirra í nágrenni við lítið enskt þorp á sjötta áratug síðustu aldar. Þegar lík fynnst í grænmetisgarðinum þeirra um miðja nótt og faðirinn er handtekinn fyrir morðið tekur Flavia það að sér að sanna sakleysi föðursins. Það hjálpar henni að hún er sérstaklega forvitin ung stúlka sem og sérlegur áhugamaður um efnafræði.

Bókin stóð algerlega undir væntingum sem kósý morð saga og því reikna ég með því að dunda mér við hinar bækurnar fimm á komandi mánuðum. Mér finnst rosalega gott að grípa til svona bóka inn á milli þegar maður hefur kannski nýlokið við bók í þyngri eða alvarlegri kantinum og vill aðeins hvíla hugann, ef hægt er að orða það svo. Ætla að fá mér næstu bók á Kyndilinn svo að ég hafi hana innan handar næst þegar neyðin kallar.

Auglýsingar

Bók 32: Just Kids eftir Patti Smith

just-kids-pback2-261x400Þessa bók var ég mjög lengi búin að vera á leiðinni að lesa. Mér finnst Patti Smith áhugaverð persóna, aðallega útaf tímabilinu sem hún lifði í New York og táknar á ákveðinn hátt fyrir marga. Svo hefur bókin fengið mikið lof, vann m.a. National Book Award í Bandaríkjunum í flokkinum fyrir bækur aðrar en skáldsögur (nonfiction), eins og kemur einmitt fram á kápunni á mínu eintaki.

Bókina skrifar Patti um samband sitt við ljósmyndarann Robert Mappelthorpe eftir að hann hefur látist úr alnæmi. En saga þeirra er einmitt líka sagan um listamannasenuna á neðri hluta Manhattan á sjöunda og áttunda áratugnum og hvernig þeim tekst með mikilli þrautseigju og fullt af hæfileikum að hasla sér völl á henni.

Smith lýsir því hvernig Mappelthorpe byrjaði með því að teikna myndir, þróaði svo stílinn sinn yfir í að nota fundna hluti og úrklippur úr tímaritum og hvernig hann fór svo að lokum að taka myndirnar sjálfur á Polariod myndavél sem honum var gefin. Hún segir líka frá sínum eigin listaferli en hún byrjaði víst sem ljóðskáld og teiknari en prófaði svo að flytja ljóðin sín á „open mic“ kvöldum með gítarspili undir. Það þróaðist þaðan yfir í heila hljómsveit og plötur teknar upp í stúdíói eins og hún er þekkt fyrir í dag en platan hennar Horses á víst að vera frábær.

Smith fer mjög fögrum orðum um Mappelthorpe og samband þeirra tveggja sem byrjaði sem ástarsamband en þróaðist svo yfir í vináttu eftir að hann kom út úr skápnum. Það er augljóst að það ríkti alltaf mikill kærleikur á milli þeirra, sama hvað bjátaði á og sama hvaða mistök þau gerðu.

Yfir öllu sem þau taka sér fyrir hendur, krakkarnir Patti og Robert, hvílir peningaleysi og hún talar mikið um hvernig þau redduðu sér á litlum peningum með að skiptast á að fara inn á söfn á meðan hitt beið fyrir utan og fékk svo lýsinguna á öllu innanhús eftirá, kaupa bara eina máltíð á kaffihúsinu á horninu sem þau svo deildu o.s.frv. Henni finnst líka gaman að „name-droppa“, þ.e. að minnast á allar frægu persónurnar sem hún kynntist á Manhattan á þessum árum. Það er auðvitað bara gaman að lesa um kynni hennar af Janis Joplin og Jimi Hendrix sem og fullt af öðrum aðeins minna þekktum listamönnum þó að maður hafi það stundum á tilfinningunni að hún sé aðeins að skreyta sögurnar.

Smith er augljóslega mjög góður penni og tungumálið er mjög fallegt í þessari bók. Mér fannst þetta rosalega kósý lestur, eitthvað sem var mjög þægilegt að lesa uppí rúmi rétt áður en ég fór að sofa. Það er líka gaman stundum að lesa um eitthvað „alvöru“, öfugt við skáldsögur, þó svo að maður geti náttúrulega aldrei 100% treyst frásögnum fólks af lífi sínu.

Bók 31: Illska eftir Eirík Örn Norðdahl

illska-200Ég fékk þessa bók í jólagjöf. Svo vann hún Íslensku bókmenntaverðlaunin núna og fékk auk þess mjög góð meðmæli frá einum besta vini. Ég hafði þess vegna frekar háar væntingar til bókarinnar en reyndi að láta þær ekki eyðileggja fyrir, eins og þær vilja stundum gera.

Bókin segir frá Agnesi, hún er litháesk að uppruna en uppalin á Íslandi og er að skrifa mastersritgerð í sögu um málefni tengd helförinni. Hún kynnist Ómari, nýútskrifuðum íslenskufræðingi, og þau stofna sér líf saman. Vegna ritgerðarinnar tekur hún viðtal við nýnasistan Arnór og heillast af honum þvert á vilja sinn. Hvaða áhrif það hefur svo á ritgerðina sem og líf hennar með Ómari fáum við að sjá.

En bókin fjallar líka um miklu meira en þetta. Inn á milli fáum við hinar ýmsu staðreyndir um helförina sem og heilan þriðjung bókarinnar sem segir okkur sögu ömmu og afa Agnesar í Litháen, sem vill svo til að er líka saga um áhrif helfarinnar á þorpið þeirra, sem og baksögu Arnórs – hvernig verður hann svona eins og hann er, hvernig er hægt að hafa lífsviðhorf nýnasista í nútíma samfélagi.

Mér fannst röddin í bókinni mjög skemmtileg og óvenjuleg. Stundum ávarpar hún lesandan t.d. beint sem mér fannst öðruvísi á hressandi hátt. Og saga Agnesar, Ómars og Arnórs er mjög áhugaverð og skemmtileg líka. Gaman t.d. að lesa um sjálfsmynd Agnesar, hvernig hún blandar saman Íslendingnum í sér og Litháanum. Persónusköpunin er með öðrum orðum góð og maður trúir líka alveg á Arnór, að hann geti verið eins og hann er. En svo kemur þessi sögukennsla þarna í miðjunni og hana átti ég virkilega erfitt með að koma mér í gegnum.

Það var satt að segja þetta sem hræddi mig við bókina til að byrja með: helfararpredikun. Á þessum tímapunkti í lífi mínu hef ég bara lesið, heyrt og séð heilan helling um helförina og hvað hún var hræðileg. Ég veit að þetta var alveg óafsakanlegt og að mannfólk var látið þola hrylling sem enginn ætti nokkurntíma að ganga í gegnum. Hvers vegna þurfti Eiríkur þá að lýsa því í svona miklum smáatriðum fyrir okkur? Hefði ekki dugað að segja sögu fjölskyldu Agnesar í þessu án þess að fara svona nákvæmlega í allan hryllingin? Mér finnst kannski bara agalega erfitt að lesa um svona ógeð en var það kannski einmitt tilgangur Eiríks, að láta manni líða illa?

Ætli það sem ég er að reyna að segja sé ekki það að hann hefði léttilega getað skorið burt allavega 100 blaðsíður af nú þegar mjög langri bók og sagan sem er kjarni bókarinnar hefði ekki verið verri fyrir vikið. Þessar frásagnir af smáatriðum þjáninga í þorpinu Jurbarkas gerðu nefninlega ekki mikið til að dýpka sögu Agnesar að mínu mati. Kannski ef ég væri rétt nýorðin 18 ára og hefði aldrei séð Schindler´s List eða lesið Dagbók Önnu Frank eða Everything is Illuminated? Svo ég tali nú ekki um Maus teiknimyndasöguna sem ég las svo eftirá og gerir það miklu betur að segja okkur frá þjáningum gyðinga í seinni heimstyrjöldinni. Ég mun fjalla um hana hérna síðar.

Ég átti í virkilegum erfiðleikum þegar ég ætlaði að gefa þessari bók einkunn á Goodreads af því að 75% af henni finnst mér alveg frábært en svo koma þessi hin 25% og draga örlítið úr. Blendnar tilfinningar. Ætli ég verði ekki að láta þar við sitja.

Bók 30: A Lion Among Men eftir Gregory Maguire

200px-A_Lion_Among_MenÞetta er þriðja bókin sem Gregory Maguire skrifar í heimi Galdrakarlsins í Oz. Fyrsta bókin, Wicked, sem fjallaði um vondu, grænu nornina hefur gert það mjög gott sem söngleikur á Broadway. Bók númer tvö fjallaði um son vondu, grænu nornarinnar og núna er komið að huglausa ljóninu í þessari.

Ég hef alltaf verið mjög hrifin af heiminum sem Gregory skapar í þessum bókum. Ég átta mig á því að hann fékk auðvitað heiminn þannig séð frá L. Frank Baum (eða frá kvikmyndagerðamönnunum sem gerðu myndina eftir henni, öllu heldur). Hann gefur samt svo allt aðra tilfinningu í bókunum en maður fær frá myndinni eða upprunalegu bókinni sem eru báðar hugsaðar fyrir börn. Þessar bækur eru sko pottþétt fullorðins og mjög dökkar og oft á tíðum drungalegar.

Ég hef nú samt alltaf verið að láta hrífast minna og minna eftir því sem ég les fleiri bækur í seríunni. Sú fyrsta var frábær, númer tvö var bara fín og þessi var eiginlega ekki meira en svona la-la. Ég bjóst við meiru af henni. Saga ljónsins er kannski bara ekki það áhugaverð ein og sér. Ég veit ekki af hverju Maguire skrifaði ekki frekar um fuglahræðuna sem tekur við sem stjórnandi í Oz eftir að galdrakarlinn lét sig hverfa. Eða í rauninni hvern sem er annan en ljónið ef hann ætlaði sér ekkert meira með sögu þess en það sem við fáum hérna.

Það var útaf vinsældum söngleiksins að ég tók upp fyrstu bókina í seríunni og svo er ég bara þeirrar manngerðar að mér finnst ég alltaf þurfa að klára allt svona, fylgja því eftir til enda sem ég er einu sinni byrjuð á. Ég þarf samt að hugsa mig aðeins betur um áður en ég byrja á næstu bók.

Bók 29: Hinir réttlátu eftir Sólveigu Pálsdóttur

Hinir_rettlatu-175x275Þetta er nýjasta bókin eftir Sólveigu sem ég verð að játa undir eins að er náskyld kærastanum mínum. Hún var svo góð að senda okkur þessa bók til Noregs þar sem það er ekki hægt að nálgast hana hér.

Bókin heldur áfram með sama lögreglulið og var í fyrri bók Sólveigar, Leikaranum. Guðgeir og Andrés standa fyrir rannsókn á atburðum sem leiddu til þess að lík finnst í gryfju við 13. holu á golfvelli fyrir austan fjall. Á sama tíma er Særós kölluð út vegna sprengju í hvalveiðiskipi og mótmæla við veitingastaði í Reykjavík sem eru með hvalkjöt á matseðli.

Ég vil ekki segja of mikið meira um söguþráðinn en Sólveigu tekst að flétta saman þessa, að því virðist, óskyldu atburði listilega vel og heldur manni spenntum við efnið alveg til síðustu síðu. Hún gefur okkur líka dýpri innsýn inn í persónurnar sem við kynntumst í síðustu bók, þá var Andrés svolítið í sviðsljósinu en að þessu sinni er það Særós sem fær að njóta sín.

Mér finnst húmorinn hennar Sólveigar sem skín í gegn á köflum alveg frábær og læt duga að nefna byrjunina á 14. kafla máli mínu til stuðnings. Það er ekki oft sem ég hlæ upphátt við lestur, ekki einu sinni þegar ég er að lesa bækur sem eiga að vera í gamanbóka flokknum (How to Be a Woman er nýlegasta dæmið, ég brosti oft en hló aldrei beinlýnis) en þarna hló ég svo sannarlega.

Skemmtileg bók frá frábærri konu. Mæli með henni.