Bók 37: The Complete Dororo eftir Osamu Tezuka

dororo1Þetta er manga safn og fyrsta alvöru manga-ið sem ég les. Höfundurinn er japanskur og er frægastur fyrir að hafa skrifað Astro Boy, sem gerð var að teiknimynd í fullri lengd, en samkvæmt Goodreads er hann stundum kallaður faðir anime. Eftir að hafa komist að þessu í símanum mínum, þegar ég sá safnið í teiknimyndasöguhillunni á bókasafninu mínu (þegar ég var þar til að ná í Maus), ákvað ég að grípa hana og lesa. Mig hefur lengi langað til að lesa eitthvað manga en aldrei vitað alveg hvar ég ætti að byrja. Þetta var því mjög hentugt.

Sagan segir frá Hyakkimaru en áður en hann fæðist gerir faðir hans samning við hóp af djöflum sem gerir það að verkum að hann kemur í heiminn án 48 líkamsparta. Hann er yfirgefinn af foreldrum sínum en alinn upp af manni sem útbýr hann þannig að hann getur litið út eins og venjuleg manneskja, með gervifætur og -hendur, -augu, -eyru og -nef (auk ýmislegs annars ábyggilega). Þegar Hyakkimaru er orðinn nógu gamall þarf hann svo að berjast við hvern og einn af djöflunum 48 til þess að endurheimta líkamspartana sína. Við fylgjum honum á þeim ævintýrum en hann kynnist líka litlum þjófi að nafni Dororo sem slæst í för með honum.

Mér fannst aðallega gaman að lesa þessa bók uppá það að hafa núna lesið „alvöru“ manga. Það tók mig samt smá tíma að venjast því við lesturinn að fletta ekki bara „afturábak“ heldur að lesa myndirnar á hverri síðu frá hægri til vinstri og ekki nóg með það, heldur þurfti ég líka að passa það að ef tvær talblöðrur voru inni á sömu myndinni átti maður að lesa þá sem er hægra megin fyrst. Það var rosa „alvöru“ eitthvað við það.

Eftir lesturinn var mér það ekki alveg ljóst af hverju sagan er kölluð Dororo þegar hún snýst aðallega um Hyakkimaru. Hún er samt mjög skemmtileg, bardagarnir flottir og sagan skrifuð með ákveðnum húmor sem kom vel út. Á heildina litið er innihaldið samt frekar grunnt og margir endar óhnýttir í lok bókarinnar. Endirinn er líka mjög snöggur og ekkert byggt upp að honum að ráði. Kannski er manga bara þannig, að eftir lesturinn líður manni meira eins og maður hafi horft á skemmtilega spennu-/grínmynd en lesið eitthvað sérstaklega áhrifamikið. Ef svo er læt ég þetta kannski duga fyrir manga lestur minn, allavega í bili.

Auglýsingar

Bók 36: The Orphan Master’s Son eftir Adam Johnson

Orphan-Masters-Son-with-Pulitzer-BurstÉg heyrði upphaflega um þessa á hlaðvarpinu Books on the Nightstand sem ég hlusta reglulega á. Ég keypti hana svo þegar ég sá hana í bókabúðinni hér í Osló með bestu enskudeildina, Norli í Universitetsgata. Á kápunni kemur fram að bókin hafi hlotið Pulitzer verðlaunin nú í ár fyrir skáldsögur.

Sagan gerist í Norður Kóreu og strax þar hefur hún athygli mína þar sem mér finnst N-Kórea ótrúlega áhugaverður staður. Ekki það að mig langi neitt sérstaklega að dveljast þar, áhugi minn stafar frekar aðallega að því hversu öðruvísi landið er og hversu lítið af upplýsingum við höfum um daglegt líf þar. Johnson tekst að gefa okkur smá smekk af því í bókinni en svo er hann líka með frábæra og fáránlega sögu sem gæti hvergi annarsstaðar átt sér stað.

Í hnotskurn segir bókin frá Pak Jun Do, syni manns sem rak munaðarleysingjahæli, og ævintýrum hans í Norður Kóreu og víðar. Fyrsta vinnan hans er við það að stunda mannrán frá ströndum Japans. Framan af á ævi sinni gerir hann nefninlega, líkt og flestir aðrir N-Kóreubúar, það sem hann er skipaður í af yfirvöldum en þegar það gerist nauðsynlegt fyrir hann að taka ábyrgð á sínum eigin örlögum fer sagan virkilega á flug.

Johnson tekst að gefa okkur smakksprufu af lífinu í N-Kóreu í gegnum frásögn hans af Pak Jun Do og það sem sló mig er hversu ótrúlegt það er sem er lagt á marga þar. Fangabúðirnar alræmdu eru náttúrulega bara brotabrot af hörmungunum en þangað er fólk iðulega sent án dóms og laga, oft til lífstíðar, fyrir brot eins og að vera mögulega ekki sammála stjórninni eða að vera kristið. Ég vil ekki að það skiljist sem svo að fangabúðirnar séu í einhverju aðalhlutverki í bókinni, því þær eru það alls ekki, mér finnst þetta bara hræðilegar staðreyndir og merkilegar fyrir það hversu lítið er fjallað um þær.

Aftur að bókinni sjálfri. Mér finnst titillinn á henni svolítið fráhrindandi og gefa í skyn að hún innihaldi einhverskonar rómantíska sögu um samband sonar við föður sinn en það gæti vart verið fjarri sannleikanum enda faðirinn varla persóna í bókinni. Johnson nær að segja okkur frá mjög mörgum hliðum norður kóresks samfélags með ævintýrunum sem Pak Jun Do lendir í og ég var mjög ánægð með það. Sérstaklega var skemmtilegt hvernig hann hafði leiðtoga N-Kóreu á þeim tíma, Kim Jong-il eða „Dear Leader“ með sem persónu í sögunni. Þetta er bæði rosalega skemmtileg og á sama tíma áhugaverð bók sem ég held að hafi bara aukið áhuga minn á Norður Kóreu ef eitthvað er.

Bók 35: The Song of Achilles eftir Madeline Miller

achilles2Ég hafði heyrt rosalega hluti um þessa bók, hún var á mörgum topplistum yfir bestu bækur ársins 2012 og hún vann Orange Prize í fyrra. Ég fékk mér hana því á Kyndilinn og las í lestunum.

Sagan segir frá ólíklegri vináttu Patroclusar sem er arflaus konungsonur sendur til Phithiu til þess að alast þar upp og Achillesar, sonar Peleusar konungs Phithiu. Í gegnum Petroclus kynnumst við Achilles á hans uppvaxtarárum og alla leiðina í Trójustríðið. Drengirnir tveir eru eins ólíkir og tveir drengir geta verið en fljótlega eftir kynþroska þróast vinátta þeirra yfir í ástarsamband sem á eftir að endast þeim út ævina.

Það voru mjög fallegar lýsingarnar af sambandi Petroclusar og Achillesar í bókinni og áhugavert að kynnast mjúku hliðinni á þessum mikla stríðskappa. Það var líka gaman að lesa um Trójustríðið frá öðru sjónarhorni, þ.e. í gegnum augu Petroclusar og ást hans á Achillesi. Að því sögðu hreif bókin mig ekkert rosalega, mér fannst hún alls ekki leiðinleg en heldur ekki virði meira en þriggja og hálfra stjarna. Kannski var ég bara með of háar væntingar til hennar útaf öllu umtalinu.

Ég var svo að komast að því í gær að Madeline Miller mun heimsækja Bókmenntahátíðina í Reykjavík núna í haust og verð að viðurkenna að ég væri meira en til í að vera með. Rachel Joyce sem skrifaði Hina ótrúlegu pílagrímsgöngu Harolds Fry verður þar líka! Og margir aðrir áhugaverðir höfundar sem væri eflaust mjög fróðlegt að kynnast betur. Þetta gefur mér smá heimþráarstrengi.

Bók 34: Maus eftir Art Spiegelman

mausEftir að ég las Illsku og pirraði mig smá á helfararkláminu þar datt mér í hug að lesa Maus, fyrstu teiknimyndasöguna sem fékk Pulitzer verðlaunin.

Í bókinni, sem gefin var út í tveimur hlutum, tekur Spiegelman viðtöl við föður sinn sem lifði af útrýmingabúðirnar í seinni heimsstyrjöldinni. Hann myndskreytir svo frásagnir föðurins í teiknimyndasögustíl en í staðinn fyrir að teikna mannfólk teiknar hann gyðinga sem mýs og nasista sem ketti. Þeir örfáu sem hvorki eru nasistar né gyðingar í bókinni eru teiknaðir sem hundar. Fyrri bókin segir frá byrjun stríðsins og hvernig ástandið magnast upp fyrir Spiegelman eldri og fjölskyldu hans í Pólandi, frá því að þeir missa fyrirtæki sín og eigur yfir í að þurfa að fela sig frá nasistunum til þess að sleppa við að lenda í útrýmingarbúðunum. Í seinni bókinni lendir bæði Spiegelman eldri og konan hans í búðunum og við fáum að lesa og sjá hvernig þau fóru að því að lifa þær af.

Þetta var að sjálfsögðu rosalega góð bók. Þó að ég hafi lesið margt um erfiðleika gyðinga í seinni heimsstyrjöldinni þá var þessi bók nógu frumlega sett upp og nógu persónuleg líka til þess að bæta einhverju við í umræðuna og hreyfa virkilega við lesandanum. Mér fannst líka gaman að því hvernig Spiegelman sýnir föður sinn í nútímanum og veltir því fyrir sér hvernig reynslan í stríðinu hafi gert hann að þeim sérvitringi sem hann er.

Það er eiginlega ekki svo mikið meira um bókina að segja annað en að þetta er stórgóð bók sem allir ættu að lesa. Kennir manni líka að dæma ekki teiknimyndasögur of harkalega, þær geta oft leynt á sér.