Bækur sem fólk lýgur um að hafa lesið

Ég ætla að brjóta aðeins út af vananum og fjalla um bókatengt efni í dag í stað venjulegu bókrýninnar. Samkvæmt nýlegri könnun sem fjallað var um á vefsíðu The Guardian er búið að taka saman topp tíu bækur sem fólk lýgur um að hafa lesið. Það er ekki tekið fram hvaða könnun það var sem komst að þessari niðurstöðu, né hvaða fólk var spurt en ég geri ráð fyrir því að það hafi verið fólk í Bretlandi þar sem The Guardian er breskt blað. Hérna má nálgast þráðinn á TheGuardian.com en listinn er á þessa leið:

  1. 1984 eftir George Orwell
  2. War and Peace eftir Leo Tolstoy 
  3. Great Expectations eftir Charles Dickens 
  4. The Catcher in the Rye eftir JD Salinger
  5. A Passage to India eftir EM Forster
  6. Lord of the Rings eftir JRR Tolkien
  7. To Kill a Mockingbird eftir Harper Lee
  8. Crime and Punishment eftir Fyodor Dostoevsky
  9. Pride and Prejudice eftir Jane Austen
  10. Jane Eyre eftir Charlotte Bronte

Núna hef ég lesið allt á þessum lista fyrir utan númer 2 og númer 5, eða átta bækur af tíu.

Ég verð að viðurkenna að ég hef aldrei haft áhuga á að lesa Stríð og frið eftir Tolstoy, númer tvö á listanum. Ég las Önnu Kareninu sem unglingur, aðallega til þess að geta sagst hafa lesið hana, og þó að ástarsagan hafi verið falleg man ég að mér fannst hann vera með alltof mikla útúrdúra um garðyrku og fleira sem lagði ekkert til bókarinnar annað en að láta lesendanum leiðast. Það sem ég er að reyna að segja með því er að ef tragísk ástarsaga getur verið ÞAÐ leiðinleg get ég ekki ímyndað mér leiðindin sem felast ábyggilega í Stríði og friði, sérstaklega þar sem mér leiðist venjulega ekkert meira í bókum en lýsingar á stríði.

Hina bókina sem ég hef ekki lesið, A Passage to India, veit ég voðalega lítið um. Mig hefur alltaf meira langað að lesa Howard’s End eftir Forster en ef til vill ætti ég að kíkja á þessa.

Ég skil beinlýnis ekki af hverju margir ljúga um sumar af þessum bókum. Það er ekki eins og To Kill a Mockingbird eða Catcher in the Rye séru sérstaklega langar, né heldur 1984. Kannski er það af því að flestar þessar bækur eru skyldulesning í skólum og þá þarftu að segjast hafa lesið þær ef þú ert á annað borð búinn að útskrifast úr skóla. Eða, eins og góður vinur benti á þegar ég var að tala um þennan lista við hann, kannski er fólk að vitna í bækurnar og þarf því að þykjast hafa lesið þær. Eins og „Ó, þetta er bara Orwell-ískt (‘Orwellian’), alveg hreint“ þegar það er að tala um hvað stjórnvöld skipta sér mikið af borgurum eða eitthvað slíkt.

Af þeim átta sem ég hef lesið myndi ég telja To Kill a Mockingbird á meðal minna uppáhalda auk Pride and Prejudice og Great Expectations. Lord of the Rings er náttúrulega í sérklassa en þar leiddist mér samt rosalega bókin í miðjunni sem inniheldur mikið af bardögum sem og hlaupum yfir víðan völl. Af verkum Brontë systra sem ég hef lesið (sem, ókey, eru bara tvær) finnst mér Wuthering Heights eftir Emily Brontë miklu áhrifameiri en Jane Eyre.

Mér þætti mjög fróðlegt að heyra hvort svona könnun hefur einhverntíma verið framkvæmd á meðal íslenskra lesenda. Hvað ætli Íslendingar ljúgi mest um? Íslendingasögurnar og Eddu kvæðin líklega. Hvað með Sjálfstætt fólk eða annað eftir Laxness? Eitthvað eftir Þórberg Þórðar? Arnald??

Auglýsingar

Bók 39: Americanah eftir Chimamöndu Ngozi Adichie

americanah_originalÞessi bók kom út í ár og hefur fengið mjög gott umtal. Það kom mér samt verulega á óvart þegar ég sá hana á litla bókasafninu mínu hérna í úthverfi Oslóar þar sem enskudeildin er uppfærð á sirka tíu ára fresti, af aldri flestra titlana að dæma. Ég þurfti því að sjálfsögðu að taka bókina að láni en hún passar líka ágætlega inní stefnuna sem ég er að reyna að tileinka mér, þ.e. að lesa ekki bara bækur sem koma úr heiminum sem ég þekki (Bandaríkin, Bretland, Skandinavía, Ísland) heldur að kynnast aðeins öðrum löndum í gegnum skáldskap, því þegar maður hefur ekki tækifæri til þess að ferðast í líkama er næst best að gera það í huganum.

Americanah segir nefninlega frá Ifemelu sem býr að vísu í Bandaríkjunum en hún er frá Nígeríu og er að fara að flytja aftur þangað heim. Þegar bókin byrjar fer Ifemelu á hárgreiðslustofu til að láta flétta á sér hárið fyrir brottförina. Á meðan hún situr í stólnum fer hún að hugsa til baka og þannig er sagan að mestu leiti sögð. Við lesum um æsku hennar í Nígeríu og æskuástina hennar Obinze en líka um flutningana til Bandaríkjanna og líf hennar og ástarævintýri þar. Samhliða sögu Ifemelu lesum við um ævi Obinze eftir að leiðir þeirra skildust og tilraun hans til að skapa sér líf í Bretlandi. Síðasti partur bókarinnar segir svo frá lífi Ifemelu í Nígeríu eftir að hún hefur flust til baka og afskiptum hennar af Obinze sem er líka kominn heim.

Adichie, höfundur bókarinnar, hefur ekki farið dult með það að hún er með þessari bók að reyna að koma ákveðnum skilaboðum til leiðar. Hún gefur Ifemelu nefninlega mjög sterka rödd og þar að auki blogg sem mikið er vitnað í í bókinni en bloggið fjallar um upplifun Ifemelu í Bandaríkjunum sem „Non-American Black“. Auk þess sem fram kemur í beinum tilvitnunum í bloggið er mikið af hugleiðingum um kynþátt og menningu tengda honum í bókinni og það fannst mér allt mjög áhugavert. Grunnliggjandi er innsýnin að innflytjendur frá Afríku hafa aldrei upplifað sig beinlýnis sem „svarta“ fyrr en þeir koma til Bandaríkjanna og eru þar hópaðir með svörtum Ameríkönum sem þeir eiga annars ekkert sameiginlegt með.

Einnig fjallar Adichie um upplifunina af því að flytjast til og setjast að í nýju landi, bæði með reynslu Ifemelu í Bandaríkjunum og Obinze í Englandi, en það talaði mikið til mín persónulega þar sem ég hef gert það tvisvar að flytjast til annars lands og það er alltaf jafn erfitt. 

Sumt fannst mér aðeins ólíklegt í plottinu í bókinni og það truflaði mig lítið eitt. Helst það hversu auðvelt það var fyrir Ifemelu að lifa af blogginu sínu. Hún gerir það meira að segja tvisvar sinnum, með sitthvort bloggið, en í seinna skiptið þegar hún býr í Nígeríu og er að blogga um lífið þar fannst mér ennþá ólíklegra að henni tækist svo auðveldlega og fljótlega að lifa af því að blogga. Það voru nokkrir aðrir smávægilegir hlutir sem bögguðu mig en það var samt ekki nóg til þess að draga að einhverju magni úr ánægjunni við lesturinn..

Á heildina litið fannst mér þetta mjög áhugaverð og heillandi bók. Hún gaf mér innsýn inní reynslu og heim sem er annar en minn eigin en á sama tíma gat ég samsvarað mér í mörgu. Hún var auk þess skemmtileg aflestrar. Ég held að það sé ekki hægt að biðja um mikið meira.

Bók 38: Korter eftir Sólveigu Jónsdóttur

JPV332671Mig hafði lengi langað að lesa þessa bók og keypti mér eintak síðast þegar við vorum á Íslandi. Mér datt í hug að þetta gæti verið ágæt bók til að taka með í sumarfrí svo ég byrjaði á henni í fluginu á leiðinni í fríið og kláraði hana í fallegum almenningsgarði í Bordeaux.

Bókin segir sögur fjögurra ungra kvenna í Reykjavík, Hervarar, Míu, Karenar og Silju en þær eiga það allar sameiginlegt að vera í karlavandræðum af einhverjum toga. Ein kemur að manninum sínum í rúminu með annarri, önnur er að sofa hjá háskólaprófessornum sínum, kærasti þeirrar þriðju er nýbúinn að segja henni upp og sú fjórða er einhleyp en á erfiða reynslu að baki sem gerir það að verkum að hún tekur ekki bestu ákvarðanirnar í ástarmálum. Hver kafli í bókinni er svo tileinkaður einni konunni en síðan flettast sögur þeirra lauslega saman.

Nafnið á bókinni kemur frá kaffihúsinu Korter í miðbæ Reykjavíkur þar sem Hervör er í hlutastarfi en einnig þýðir korter náttúrulega fjórðungur og samsvarar því vel sögunum fjórum sem saman mynda hér eina heild.

Þetta er skemmtileg og vel skrifuð bók. Mér fannst Sólveig gera það mjög vel að flétta sögur kvennanna fjögurra saman á óvænta máta svo ég vil ekki spilla því hvernig þær tengjast hér. Söguhetjurnar hennar eru líka allar flottar, heilsteyptar konur þó svo að þær séu auðvitað langt frá því að vera fullkomnar manneskjur, enda væri hundleiðinlegt að lesa um fullkomnar manneskjur. Ég get eiginlega ekkert slæmt sagt um þessa bók, enda var hún alveg nákvæmlega það sem ég var að leita eftir og hinn fullkomni félagi í fríið, eins og mig hafði grunað. Mæli einshugar með henni.