Bók 44: Doctor Sleep eftir Stephen King

Doctor_SleepÞegar ég frétti fyrst af því að Stephen King væri búinn að skrifa framhald af einni bestu bókinni sinni, The Shining, vissi ég að ég yrði að lesa hana. Hún passaði líka svona prýðilega inn í lestrarvenjur mínar núna í október sem hryllingsbók fyrir hrekkjavöku – líklega það sem útgefendurnir voru að spá í almennt þegar þeir gáfu bókina út í september.

Það var samt ekki laust við smá trega hjá mér þegar ég settist fyrst niður við lesturinn. Eins og er oft hætta með framhöld var ég auðvitað hrædd um að bókin myndi ekki standast samanburðinn við fyrri bókina og jafnvel draga úr ágæti hennar. En auk þess hef ég nýlega misst svolítið trúna á King, sérstaklega efti að hafa lesið It eins og ég fjallaði um í mars. Það er frekar sorglegt fyrir mig þar sem hann var á meðal minna uppáhalda sem unglingur og bækurnar hans voru þær fyrstu sem ég las á ensku. Bækur eins og Firestarter, Misery, Carrie og jafnvel Tommyknockers og Gerald‘s Game hafði ég öllum eins gaman af. Og auðvitað var The Shining í þessum hóp líka.

Það kom samt í ljós fljótlega að það var ekkert að óttast. Bókin heldur sögu litla „Redrum“ stráksins úr The Shining, Dan Torrance, áfram. Dan hefur því miður fetað í fótspor föður síns og er alkóhólisti enda hjálpar áfengið honum að deyfa „the shining“ eða skyggnigáfuna. Hann lifir á flakki um Bandaríkin og hefur ekki mikið gert við líf sitt. Hann reynir samt að snúa við blaðinu og um svipað leiti verður lítil stúlka, Abra (eins og „ka-da-bra“), á vegi hans en hún er með svipaða hæfileika og hann sjálfur.

Ég veit ekki hversu mikið meira ég ætti að segja en það kemur í ljós að til er hópur af skrítnu flökkufólki í Bandaríkjunum sem lifir á sálum lítilla sérstakra barna og fyrir þeim er Abra eins og heilt jólahlaðborð.

Ég hafði mjög gaman af þessari bók og hún var virkilega óþæginleg og ógnvekjandi á pörtum. Og þá á ég við á góðan hátt. King gleymdi sér aldrei í tilgangslausum hliðarsögum eins og ég var hrædd um og ekkert óviðeigandi hópkynlíf á sér stað á meðal barna. Hann er að sjálfsögðu rosalegur sögumaður og náði virkilega að njóta sín hér. Bókin er allt öðruvísi en forrennari hennar en hún virkar samt á sinn hátt.

Auglýsingar

Bók 43: The Devil in Silver eftir Victor LaValle

insilverHryllingsbók fyrir hrekkjavöku, númer 2. Ég man satt að segja ekki hvar ég heyrði fyrst um þessa en ég var búin að bæta henni á Goodreads listann minn fyrir hrekkjavöku-/haustlestur fyrir nokkrum mánuðum síðan. Hún kom fyrst út í ágúst í fyrra.

Sagan á sér stað á geðdeild eða geðsjúkrahúsi í útjaðri New York borgar. Hún byrjar þegar Pepper er lagður þar inn fyrir slagsmál af því að löggan sem handtekur hann sleppur við skýrslugerð ef hún leggur glæpamanninn inn frekar en setur hann í steininn. Pepper á upphaflega bara að vera inni í fáeina daga en en það er fljótt að breytast þegar hann gerir eitthvað smávægilegt af sér og lengir þar með „afplánunina“. Eftir stutta dvöl kemst hann að því að það er meira að á geðsjúkrahúsinu en verkferlar og starfsfólk sem er alveg sama um sjúklingana, því djöfullinn sjálfur virðist nefninlega vera á meðal þeirra. Og hann er að drepa sjúklingana einn og einn án þess að nokkur lyfti litlafingri til að stoppa það.

Þetta hljómar mjög vel, allavega fyrir ruglaðan hryllingsaðdáanda eins og mig. En þá þarf úrvinnslan líka að vera nógu góð til að standa undir því og halda dulúðinni og spennunni. Það gerir þessi bók því miður ekki. Ég meina, hérna erum við með spítala fullan af geðsjúklingum og djöful lokaðan inni með þeim. Sögumaðurinn er mögulega/mögulega ekki geðveikur sjálfur, allavega var ég alltaf að bíða eftir afhjúpuninni sem myndi sýna okkur að hann hafi í raun og veru verið klikkaður allan tímann. Svo er einhvernveginn ekkert gert meira með þetta og sagan látin snúast meira um samskipti sjúklinganna og aðstæðurnar á deildinni og í kerfinu þarna almennt. Til að bæta gráu ofan á svart er svo djöfullinn sýndur, þ.e. honum lýst í smáatriðum, mjög snemma sem minnkar mikið hræðsluna við hann sem hið óþekkta.

Bókin var auk þess skrifuð frekar undarlega því inn á milli ávarpar LaValle lesandann beint og oft þá í gríntóni, kemur með einhverja frekar aulalega brandara áður en hann heldur svo áfram með söguna eins og ekkert hafi í skorist. Mér fannst það alveg eyðileggja stemninguna sem hann var annars að skapa í frásögninni.

Í hnotskurn: Ekkert leiðinleg bók en hún er ekki alveg nógu ákveðin í því hvað hún ætti að vera og ekki alveg nógu fagmannlega skrifuð.

Bók 42: The Demonologist eftir Andrew Pyper

demonologistHryllingsbók fyrir hrekkjavöku! Ég elska þennan árstíma og allt sem í honum felst, þar á meðal hrekkjavöku enda svaka hryllingsmyndaaðdáandi. Ég reyni þess vegna að finna mér einhverjar ógnvekjandi bókmenntir til þess að lesa í þessum mánuði og ég hafði heyrt fjallað um þessa í hlaðvarpinu Books on the Nightstand. Aftan á bókinni stendur að maður þurfi að passa sig á að lesa hana ekki rétt fyrir svefn af því að hún sé svo ógnvekjandi en það hljómaði eins og einmitt það sem ég var að leita eftir.

Bókin fjallar um háskólaprófessorinn David Ullman sem kennir við Columbia í New York og er sérfræðingur í Paradísarmissi (Paradise Lost) eftir John Milton. Paradísarmissir fjallar einmitt mikið um djöfulinn og fylgisveina hans og hefur Ullman því orðið þekktur innan menntaheimsins sem eins konar djöflafræðingur. Hann fær dularfullt, en að því er virðist einfalt, verkefni sem krefst stuttrar ferðar til Feneyja og ákveður að taka unga dóttur sína með sér. Þar eiga undarlegir hlutir sér stað sem virðast eiga eitthvað skilt við andsetningu og áður en David getur komið þeim í burtu lætur dóttir hans sig falla ofan af hótelþaki og í síkið fyrir neðan. Það síðasta sem hún segir við pabba sinn áður en hún fellur, og hverfur síðan sporlaust, eru orðin „Finndu mig“ og það er nákvæmlega það sem hann eyðir afganginum af bókinni í að reyna að gera.

Mér fannst bókin byrja rosa vel og vera virkilega ógnvekjandi en hún missti dampinn fljótlega fyrir mig og varð aldrei meira en ögn krípý eftir það. Hún var alls ekki leiðinleg en bara ekki það sem ég hafði búist við. Kannski var partur af því að allur seinni helmingur bókarinnar fer í ferðalag fram og aftur um Bandaríkin sem í samanburði við Feneyjar er mest óspennandi staður sem ég get hugsað mér. Efnileg bók sem tekst ekki að standa undir væntingum sem ógnvænleg.

Bók 41: Cuckoo’s Calling eftir Robert Galbraith

CuckoosCallingCoverVerandi mikill Harry Potter aðdáandi fannst mér mig bera ákveðna skildu til þess að lesa þessa bók eftir að það kom í ljóst núna í júlí að JK Rowling skrifaði hana undir dulnefni en bókin kom út í apríl í ár. Til þess að vera fullkomlega hreinskilin hefði ég aldrei annars tekið hana upp.

Þetta er krimmi og fjallar um fyrrverandi herlögreglumanninn Cormoran Strike. Strike hætti í hernum eftir að hafa misst annan fótinn í sprenjuárás í Afghanistan og gerðist einkaspæjari í London. Þegar sagan hefst fær Strike það mál í hendurnar að rannsaka dauða fyrirstætu og samkvæmisljóns í London sem lést eftir að hafa fallið fram af svölunum í íbúð sinni. Rannsókn lögreglu komst að þeirri niðurstöðu að dauðsfallið væri sjálfsvíg en þessu er bróðir fyrirsætunnar ekki sammála og leitar þess vegna á náðir Strike.

Strike er svona týpískur spæjari sem er ekki með hlutina á hreinu í einkalífinu og reykir og drekkur of mikið . Hann heillaði mig þess vegna ekkert alltof mikið og málið og úrvinda þess fannst mér snúast of mikið um upplýsingaöflun og ég sem lesandi ekki fá nógu mikið af eiginlegri sögu.

Rowling tókst samt, þrátt fyrir þessa vankanta að halda athygli minni alla bókina í gegn, enda skemmtilegur og stórgóður penni. Úrlausn málsins var líka mjög sniðug og maður gat mikið reynt að „taka þátt“ með því að reyna að giska sjálfur. Ég er reyndar alltaf rosalega léleg í svoleiðis en það er samt skemmtilegt að finnast eins og maður eigi möguleika á að geta leyst málið sjálfur, alltaf jafn leiðinlegt þegar höfundurinn kemur með lausn í lokinn sem byggist á einhverju sem lesandi gat ómögulega vitað. Ánægjan endar samt við söguna sjálfa sem ég vildi að hefði verið aðeins áhugaverðari.

Bók 40: May We Be Forgiven eftir A.M. Homes

may-we-be-forgivenÉg tók þessa bók fram eftir að hún vann Women’s Prize for Fiction í ár (það sem áður hét Orange Prize).

Plottið virkaði mjög áhugavert framan af. Bróðir Harrys snappar og drepur konuna sína, sem vill svo til að var að halda við Harry. Harry stígur þá svo að segja inn í líf bróur síns, flytur inn í húsið hans, gengur í fötunum hans og hugsar um börnin hans og gæludýr. Hann hefur líka hvort eð er í rauninni misst gamla lífið sitt út af skandalinum í kringum bróðurinn og framhjáhaldið. Við heyrum samt alltaf bara af þessum skandal mjög óljóst og í gegnum framkomu annarra persóna við Harry. Ég hélt einhvernveginn að það yrði svo meira gert með þetta, við myndum komast að einhverju „tvisti“ en það varð ekki, sem olli smá vonbrigðum.

Eitthvað er ponsu ekki í lagi við Harry og söguna hans og lofar það góðu í fyrstu. Það fór samt ansi fljótt að bögga mig hversu passívur Harry er gerður. Hlutir bara koma fyrir hann og það er ekki beinlínis eins og hann láti sig hafa þá heldur er frekar eins og þeir fái ekkert á hann til að byrja með, hann bara breytir lífi sínu til samræmis. Það er þetta tilfinningaleysi sem gerði hann virkilega óraunverulegan fyrir mér, sagan er nú einu sinni sögð frá hans sjónarhorni, hann hlýtur að hafa einhverja skoðun á því sem kemur fyrir hann.

Dæmi: Frekar rugluð kona sem Harry hafði lauslega verið að hitta skilur einn góðan veðurdag eftir elliæra foreldra sína hjá honum og lætur sig svo hverfa. Hann fer þá bara að hugsa um foreldrana og lætur þá búa hjá sér, eins og það sé það eðlilegasta að gera í stöðunni! Ekki það að koma þeim fyrir einhversstaðar! Og aldrei fáum við nokkurn smjörþef af því að þetta sé að trufla hann, að öðru leiti en að þetta sé kannski svolítið óþæginlegt.

Það var margt annað sem böggaði mig við lesturinn, hlutir sem virkuðu bara óraunverulegir eins og til dæmis hvernig fer fyrir bróðurinum ásamt fleiru. Samt hélt ég alltaf áfram að lesa, kannski af því að ég var alltaf að búast við einhverri fléttu eða viðsnúningi. Þegar upp var staðið sat ég eftir með svona “meh” tilfinningu gagnvart bókinni. Ég skil satt að segja ekki alveg hvernig dómnefnd Women’s Prize for Fiction gat fundist þetta vera besta bók ársins eftir konu sem skrifar á ensku.