Bók 45: Life After Life eftir Kate Atkinson

life-after-life-coverÉg hafði áður lesið eina bók eftir Atkinson, Behind the Scenes at the Museum, sem ég var mjög hrifin af en það var líka fyrsta bókin hennar. Síðan sú bók kom út skilst mér að Atkinson hafi að mestu verið að skrifa krimma sem ég hef ekki lesið en þessa gat ég engan vegin látið fram hjá mér fara þar sem Atkinson virtist með henni hverfa aftur til „literary fiction“ og bókin fékk auk þess mikið og lofsamlegt umtal. Bókin var gefin út núna í ár.

Sagan er mjög óvenjuleg en í henni er aðalsögupersónan, Ursula, látin fæðast aftur og aftur og endurtaka þar með líf sitt að því er virðist í einhverjum æðri tilgangi. Hún deyr á mismunandi tímapunktum á ævi sinni, fyrst strax í fæðingu, og virðist þannig vera einkar óheppin stúlka. Í hvert skipti sem hún endurtekur líf sitt virðist samt vera eins og hún hafi lært eitthvað, án þess að vera endilega meðvituð um það en nóg til þess að gera ekki sömu mistökin aftur.

Ursula lifir á mjög áhugaverðum tímum en hún fæðist 1910 í sveitasetri á Englandi og spannar ævi hennar þannig báðar heimsstyrjaldirnar (þegar henni tekst að lifa nógu lengi, það er). Kaflarnir sem segja frá loftárásunum í London í seinni heimsstyrjöldinni fannst mér sérstaklega áhugaverðir. Aðrir partar eru átakanlegir, eins og ein útgáfa af lifi Ursulu þar sem hún lendir í einkar ofbeldisfullu hjónabandi. Smám saman fikrar ævi hennar sig svo yfir í e.t.v. raunverulegan tilgang sinn sem hefur eitthvað með Hitler að gera. Ég vil ekki segja of mikið til þess að spilla ekki fyrir neinum en í rauninni er þetta samt gefið upp strax á fyrstu síðu í bókinni.

Það mætti ef til vill halda að bókin verði endurtekningasöm með allar þessar endurfæðingar en Atkinson tekst að forðast það algerlega með því að bæta alltaf einhverju nýju við eða einfaldlega hoppa yfir þá parta sem haldast óbreyttir. Ég var mjög ánægð með þessa bók og hlakka til að lesa meira eftir Atkinson.

Auglýsingar