The Goldfinch eftir Donnu Tartt

The_goldfinch_by_donna_tartÉg hafði lesið fyrstu bók Tartt, The Secret History, og var mjög ánægð með hana svo ég var náttúrulega frekar spennt þegar ég frétti að hún væri að fara að gefa út nýja og var ekki lengi að fá mér hana. Ég var aftur á móti mjög lengi að lesa hana en það er svosem önnur saga.

Þessi bók fjallar um Theodore Decker sem missir móður sína ungur þegar listasafnið sem þau eru að heimsækja á Manhattan er sprengt upp af hryðjuverkamönnum. Þegar hann rótar sig út úr rústunum með bara hálfa meðvitund tekur hann í einhverri rælni með sér ómetanlegt listaverk sem hafði verið þarna til sýnis, Gullfinkuna. Málverkið er svo rauði þráðurinn í gegnum alla bókina og stöðugi punkturinn í lífi Theo en hann lendir í ýmsu á leið sinni til fullorðinsaldurs.

Mér fannst Tartt gera það mjög vel að sýna okkur hvernig óvenjuleg æska Theos mótar hann sem fullorðinn einstakling. Það þýðir samt ekkert endilega að manni líki við hann, hann fór virkilega í taugarnar á mér á tímabili en samt ekki þannig að ég hætti að njóta sögunnar, mér var nefninlega alltaf annt um hann og langaði til að hlutirnir rættust fyrir hann. Það finnst mér vera merki um góðan penna. Bókin er kannski aðeins langdregin á köflum og er það hennar helsti galli, við fáum til að mynda aðeins of mikið að vita um hvernig gömul húsgögn eru gerð upp. Mér fannst líka endirinn full snyrtilegur án þess að ég segi meira um það til að spilla honum ekki. En þrátt fyrir þessa smá galla er þetta rosalega góð bók og ég mæli eindregið með henni.

_________________________________________

Fjúkk, þá er ég loksins búin með þessa fyrstu bók ársins! Nú er það bara að fara að lesa eitthvað meira til þess að ná mér á strik, ég er virkilega eftirá í ár miðað við síðustu lestrarár mín. Ég ákvað samt að setja mér ekki takmark í ár með fjölda bóka en er frekar búin að einsetja mér að lesa sem mest af bókunum sem ég á nú þegar uppí hillu, allavega núna og fram í apríl. Við skötuhjúin munum nefninlega leggja í landflutninga í lok apríl þegar við flytjum frá Noregi og aftur heim til Íslands!

Auglýsingar

Bók 52: Alex eftir Pierre Lemaitre

alex-pbkÉg hafði heyrt um þessa hjá Savidge Reads en hann var svo svakalega hrifinn af henni að ég freistaðist líka. Bókin er upprunalega gefin út á frönsku og er önnur í seríu en af einhverri ástæðu hefur sú fyrsta ekki enn verið þýdd. Það kom þó ekki að sök við lesturinn og ef ég hefði ekki vitað að það ætti að vera önnur á undan þá hefði ég ekki uppgötvað það við lesturinn.

Bókin fjallar um unga stúlku, Alex, sem er rænt og lögreglumanninn, Verhœven, sem er að reyna að finna hana. Málið reynist samt vera miklu flóknara en bara þetta eina mannrán og það er þar sem hlutirnir fara að verða áhugaverðir.

Bókin er ekki þessi týpíski krimmi, langt þar í frá. Eitt af því sem gerir hana svolítið spes er að frásögnin skiptist á að vera útfrá rannsóknarlögreglumanninum og svo fórnarlambinu sjálfu, þ.e.a.s. við komumst aðeins inní hausinn á Alex sjálfri sem reynist mjög áhugavert. Bókin vekur líka upp ýmsar spurningar um rétt og rangt og hvað það er sem kemur uppá og getur leitt fólk út á glæpabrautina.

Þetta var rosa fín svona „pásu bók“ eða bók sem maður les þegar maður vill taka sér smá pásu frá þyngri lestri. Ég var mjög spennt í henni sem er náttúrulega það sem maður er að leitast eftir hjá krimmum. Endirinn fór ofurlítið í taugarnar á mér en alls ekki svo að hann eyðilegði ánægjuna af lestri bókarinnar.

                                                                      

Núna er ég þá búin að skrifa um 52 bækur sem ég las á árinu 2013, þó svo ég hafi í raun lesið aðeins fleiri bækur en það. Ég reikna fastlega með að halda áfram að skrifa hérna um bækurnar sem ég les en veit ekki hvort ég mun halda áfram að númera þær. Þá er best að drífa sig í að klára bókina sem ég er að lesa núna, The Goldfinch eftir Donnu Tartt, svo ég geti skrifað um hana hérna sem fyrst. 

Bók 51: The Luminaries eftir Eleanor Catton

the_luminaries_a_pÉg var svo heppin eða sniðug að hafa pantað þessa bók á bókasafninu í Osló rétt áður en tilkynnt var hver hefði hlotið Booker verðlaunin svo ég var fremst í röðinni þegar listinn tífaldaðist í lengd. Bókin hlaut semsagt Booker verðlaunin í ár og er með lengri bókum ef ekki sú lengsta sem hefur gert það og Eleanor Catton er auk þess yngsti höfundurinn til að hljóta þessi verðlaun.

Sagan gerist á Nýja Sjálandi í gullæðinu þar á 19. öld þegar hvítir menn eru að flytjast til landsins í fyrsta sinn. Kjarninn í sögunni er rágáta um horfið gull, látinn mann og annan sem er horfinn. Svo fer öll bókin í það að segja okkur mismunandi brot af sögunni útfrá sjónarhornum tólf sögupersóna sem við þurfum svo aðeins að púsla saman.

Catton var mjög upptekin af forminu við skrif bókarinnar og snýst það allt um dýrahring stjörnumerkjanna og stjörnuspeki. Bókinni er skipt upp í tólf kafla sem verða sífellt styttri eftir því sem líður á bókina. Mér finnst Catton aðeins hafa tapað sér í forminu og látið söguþráðinn gjalda þess. Sagan var framan af rosalega góð og áhugaverð en fer eftir kannski 500 blaðsíður (af 800) að verða full endurtekningarsöm. Bókin er samt frumleg og það var gaman að lesa eitthvað frá annarri heimsálfu en þessum tveim sem meirihluti bóka sem ég les virðist vera frá. Ég er því ánægð með að hafa lesið The Luminaries en ég er líka fegin að ég er búin að því.