Cat’s Eye eftir Margaret Atwood

catseyeÉg hef átt þessa bók uppí hillu í dágóðan tíma. Áður hef ég lesið lesið fjórar bækur eftir Atwood sem skrifar bæði vísindaskáldskap sem og alvarlegri bókmenntaverk, en þessi fældi mig alltaf frá og ég held að það hafi aðallega verið bókakápan sem er alveg agalega 90-og-eitthvað. Það stendur samt líka á kápunni að bókin hafi lent á stutta listanum fyrir Booker verðlaunin og þess vegna lét ég mig loksins hafa það að opna hana.

Bókin segir frá Elaine sem er málari. Hún passar sig að kalla sig ekki listamann af því að það finnst henni agalega tilgerðalegt en hún er málari og í byrjun bókar snýr hún aftur til heimaborgar sinnar, Toronto í Kanada, þar sem fram á að fara yfirlitssýning yfir feril hennar í listagallerýi. Það er greinilegt að það að snúa aftur á æskuslóðirnar kallar fram ýmsar minningar hjá Elaine og fer bókin í endurminningar hennar að mestu leyti.

Elaine eyddi fyrstu æskuárunum í ferðalög um norður-Kanada með föður sínum, sem var skordýrafræðingur, móður og eldri bróður. Þau þurftu að lifa ansi frumstætt og sváfu mikið til úti svo það voru stór viðbrigði þegar þau keyptu loksins fokhelt hús í Toronto og settust þar að. Elaine, sem hingað til hefur einungis umgengist bróður sinn, fer núna í fyrsta sinn í skóla þar sem það er ætlast til þess að hún eignist vinkonur. Það gerist sem betur fer nokkuð auðveldlega þó svo að Elaine sé frekar utangátta og þykist meira hafa gaman af leikjum þeirra en að njóta þeirra í raun og veru. Hún er samt ansi vel innvígð í heim stúlkna þegar Cordelia flytur í hverfið og bætist í vinkonuhópinn. Með Cordeliu breytist dínamíkkin í hópnum og Elaine verður útskúfuð og gagnrýnd fyrir allt sem hún gerir eða gerir ekki, hún lendir í einelti. Hún heldur áfram að reyna að tilheyra en er síendurtekið brotin niður og að lokum er maður sem lesandi farinn að grátbiðja hana um að labba bara í burtu. Foreldrar allra stúlknana, þ.m.t. Elaine, virðast vita að eitthvað er í gangi en aðhafast ekkert.

Bókin fjallar samt ekki bara um þetta tímabil í ævi Elaine en ég vil ekki spilla því of mikið hvernig fer. Það er samt augljóst alla bókina að hún á í ansi flóknu sambandi við Cordeliu sem endist eitthvað fram á fullorðinsár.

Mér fannst mjög erfitt að lesa um eineltisárin og á sama tíma frekar undarlegt hvernig þau enduðu (fyrir þig sem ætlar að lesa þessa bók, ekki búast við neinu rosa uppgjöri eða uppreisn æru). Annað sem truflaði mig voru lýsingarnar á kvennfólki sem virtust mest eiga að snúast um hversu miklu betri Elaine væri en meðalkonan af því að hún hefði umgengist karlmenn svo mikið og hugsaði meira eins og þeir.

Þrátt fyrir þessa smá agnúa í frásögninni heillaði þessi bók mig mikið. Það sem gerði hana áhugaverða fyrir mig var ekki bara að lesa um konu sem upplifir sig sem ósköp venjulega en vinnur samt við frekar óvenjulegan hlut án nokkurar tilgerðar eins og listamönnum hættir til, heldur líka viðhorf hennar gangvart því að eldast og hversu erfitt það getur verið fyrir miðaldra konur að vera teknar alvarlega fagmannlega. Hún er kannski ekki sú heilbrigðasta þegar kemur að ástarsamböndum en gallar eru það sem gera persónur heilsteyptar.

Ég sé á Wikipedia að 1989, árið sem þessi bók lenti á stutta listanum fyrir Booker verðlaunin, vann bók Kazuo Ishiguros, The Remains of the Day, og ég get ekki verið annað en sammála því að sú bók sé betri. Það breytir því samt ekki að ég er ánægð með að hafa lesið þessa og myndi mæla með henni.

Auglýsingar