Topp 5 nýjar erlendar bækur sem mættu rata í jólapakkann minn

Ég les mikið á ensku og er alltaf að heyra um nýjar bækur sem ég vildi komast í. Það vill svo til að ég fór einmitt í bókabúðina í gær þar sem ég fjárfesti í tveimur nýjum, enda var 30% afsláttur af erlendum bókum hjá Eymundsson um helgina. Bækurnar sem komu heim með mér voru nýjustu bækur tveggja uppáhalds rithöfundanna minna, The Children Act eftir Ian McEwan og The Bone Clocks eftir David Mitchell.

Það er samt enn af nógu að taka á óskalistanum mínum, ég er þegar búin að tala um nýjar íslenskar bækur sem mig langar að lesa og hérna kemur því listi yfir topp 5 nýjar erlendar bækur sem ég óska mér í jólagjöf.

5. Station Eleven eftir Emily St. John Mandel

Ég heyrði talað um þessa á uppáhalds bókahlaðvarpinu mínu, Books on the Nightstand, en þar héldu þáttastjórnendurnir varla vatni yfir henni. Hún er vísindaskáldsaga og þó ég lesi ekki mikið af þannig bókum, held ég að ég megi ekki láta þessa fram hjá mér fara. Hún fjallar um hóp af leikurum í einhvers konar „post-apocalyptic“ heimi, hljómar spes en það er einmitt jákvætt ef það er gert vel. Bókin var tilnefnd til National Book Award í Bandaríkjunum núna í ár.

4. We Are All Completely Beside Ourselves eftir Karen Joy Fowler

Þessi bók, eins og reyndar ein önnur á listanum, var tilnefnd til Booker verðlaunanna í ár en hún vann líka PEN/Faulkner verðlaunin fyrir skáldskap. Ég hef auk þess heyrt mikið fjallað um hana, sérstaklega á bókahlaðvarpinu The Readers. Þetta er einhvers konar fjölskyldudrama en með stórri vendingu (e. twist) sem er einmitt líka, eins og með spes söguþráð í Station Eleven sem ég fjallaði um hér að ofan, mjög jákvætt ef það er vel gert.

3. Colorless Tsukuru Tazaki and His Years of Pilgrimage eftir Haruki Murakami

Forsíða Colorless Tsukuru Tazaki and His Years of PilgrimageAuðvitað langar mig að lesa nýjustu Murakami. Það þarf varla að fara nánar út í það. Ég var mjög hrifin af síðustu bókinni hans, 1Q84, eða svona tveimur þriðju af henni allavega (hún var mjööög löng).

Þessi bókin hefur verið þýdd á íslensku, heitir Hinn litlausi Tsukuru Tazaki og pílagrímsár hans og var gefin út af Bjarti. Samkvæmt upplýsingum frá starfsmönnum Bjarts var hún hins vegar þýdd úr ensku, ekki japönskunni sem hún var skrifuð á, sem mér þykir frekar lélegt. Fyrst ég þarf að lesa þýðingu vil ég frekar lesa eftir bara eina en tvær. Og ég vil helst lesa hana í umbrotinu sem er með þessa forsíðu eins og á myndinni, hún virkar eitthvað svo girnileg.

2. To Rise Again at a Decent Hour eftir Joshua Ferris

Ég elskaði fyrstu bók Ferris, Then We Came to the End, sem kom út árið 2007 og hef þess vegna mikinn áhuga á öllu sem hann sendir frá sér. Þetta er bara þriðja bókin hans en hún var einnig tilnefnd til Booker verðlaunanna í ár, eins og We Are All Completely Beside Ourselves sem ég fjallaði um að ofan, lenti meira að segja á stutta listanum.

Þetta virðist af lýsingum vera mikil samtímasaga, einhver býr til síður á samfélagsmiðlum í nafni aðalpersónunnar og fer að lifa lífi hans á netinu betur en honum tekst að gera það í raunveruleikanum. Áhugavert.

1. The Book of Strange New Things eftir Michel Faber

Ég hef, skammarlega finnst mér, ekki lesið neitt eftir Faber. Hann er frægastur fyrir bók sína The Crimson Petal and the White en það er líka nýbúið að gera mynd með Scarlett Johansson eftir fyrstu bókinni hans, Under the Skin. Hann skrifar víst bækur sem erfitt er að setja í bara einn flokk og þessi er bæði vísindaskáldskapur og fantasía en líka bókmenntaskáldskapur (e. literary fiction). Books on the Nightstand hlaðvarpið mælti líka með þessari. Hún á að vera geðveik.

Auglýsingar

Topp 5 íslensk skáldverk sem vekja áhuga minn úr jólabókaflóðinu í ár

Ég ætla að taka upp á því hérna á síðunni að vera einstöku sinnum með topp 5 lista yfir eitthvað bókatengt. Núna eru Bókatíðindi dottin inn um lúguna hjá landsmönnum og því ekki úr vegi að glugga aðeins í þau og taka saman topp 5 íslensk skáldverk sem vekja áhuga minn úr jólabókaflóðinu.

 5. Drón eftir Halldór Armand

Ég las ekki bók Halldórs um Vince Vaughn en er forvitin um þessa. Alltaf gaman að prófa nýja höfunda en þetta er eina bókin á þessum lista sem er eftir höfund sem ég hef ekki lesið neitt annað eftir. Þessi virkar eins og hún sé skemmtileg, með óvenjulegum söguþræði, en eins og hún hafi líka eitthvað að segja. Ef það er vel gert, ætti það að vera mjög góð blanda.

 4. Kata eftir Steinar Braga

Þessa bók hefur verið mikið fjallað um síðan hún kom út núna í október. Ég hefði samt verið forvitin þó hún hefði ekki hlotið neitt umtal vegna þess að Steinar skrifar mjög áhugaverðar bækur, allavega þær þrjár sem ég hef lesið (Konur, Himinninn yfir Þingvöllum og Hálendið). Ég býst þess vegna ekki við öðru en að þessi verði áhugaverð. Ég vona að hann bregðist mér ekki af því að ég er þegar búin að setja þessa á óskalistann.

 3. Vonarlandið eftir Kristínu Steinsdóttur

Ég ætti ef til vill að játa undir eins að ég er þegar búin að lesa þessa og er mjög hrifin. Ég hef bara lesið eina aðra bók eftir Kristínu, Ljósu, sem ég var mjög hrifin af, en mig langar að lesa mun fleiri. Þessi bók segir frá heillandi tímum í Reykjavík á árdögum sínum og sérstaklega lífi kvenna á þessum stað og tíma.

 2. Öræfi eftir Ófeig Sigurðsson

Ég las fyrri bók Ófeigs, Skáldsögu um Jón, sem hlaut Bókmenntaverðlaun Evrópusambandsins og þessi vekur þess vegna forvitni mína. Söguþráðurinn virkar líka áhugaverður sem spillir ekki, einhvers konar mistería í sambland við óð „um öræfi íslenskrar náttúru og menningar,“ svo ég vitni í textann sem birtist um bókina í Bókatíðindum.

 1. Englaryk eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur

Ég er rosalega hrifin af bókum Guðrúnar Evu og læt þessa því ekki fram hjá mér fara. Það er alltaf eitthvað smá einkennilegt í heiminum sem hún skapar í bókum sínum og í þessari bók hittir ein sögupersónanna Jesú (ekki finnur heldur hittir) og út frá því spinnst sagan. Ég hef enga trú á öðru en Englaryk verði með bestu bókum jólabókaflóðsins.