Bók 52: Alex eftir Pierre Lemaitre

alex-pbkÉg hafði heyrt um þessa hjá Savidge Reads en hann var svo svakalega hrifinn af henni að ég freistaðist líka. Bókin er upprunalega gefin út á frönsku og er önnur í seríu en af einhverri ástæðu hefur sú fyrsta ekki enn verið þýdd. Það kom þó ekki að sök við lesturinn og ef ég hefði ekki vitað að það ætti að vera önnur á undan þá hefði ég ekki uppgötvað það við lesturinn.

Bókin fjallar um unga stúlku, Alex, sem er rænt og lögreglumanninn, Verhœven, sem er að reyna að finna hana. Málið reynist samt vera miklu flóknara en bara þetta eina mannrán og það er þar sem hlutirnir fara að verða áhugaverðir.

Bókin er ekki þessi týpíski krimmi, langt þar í frá. Eitt af því sem gerir hana svolítið spes er að frásögnin skiptist á að vera útfrá rannsóknarlögreglumanninum og svo fórnarlambinu sjálfu, þ.e.a.s. við komumst aðeins inní hausinn á Alex sjálfri sem reynist mjög áhugavert. Bókin vekur líka upp ýmsar spurningar um rétt og rangt og hvað það er sem kemur uppá og getur leitt fólk út á glæpabrautina.

Þetta var rosa fín svona „pásu bók“ eða bók sem maður les þegar maður vill taka sér smá pásu frá þyngri lestri. Ég var mjög spennt í henni sem er náttúrulega það sem maður er að leitast eftir hjá krimmum. Endirinn fór ofurlítið í taugarnar á mér en alls ekki svo að hann eyðilegði ánægjuna af lestri bókarinnar.

                                                                      

Núna er ég þá búin að skrifa um 52 bækur sem ég las á árinu 2013, þó svo ég hafi í raun lesið aðeins fleiri bækur en það. Ég reikna fastlega með að halda áfram að skrifa hérna um bækurnar sem ég les en veit ekki hvort ég mun halda áfram að númera þær. Þá er best að drífa sig í að klára bókina sem ég er að lesa núna, The Goldfinch eftir Donnu Tartt, svo ég geti skrifað um hana hérna sem fyrst. 

Auglýsingar

Bók 51: The Luminaries eftir Eleanor Catton

the_luminaries_a_pÉg var svo heppin eða sniðug að hafa pantað þessa bók á bókasafninu í Osló rétt áður en tilkynnt var hver hefði hlotið Booker verðlaunin svo ég var fremst í röðinni þegar listinn tífaldaðist í lengd. Bókin hlaut semsagt Booker verðlaunin í ár og er með lengri bókum ef ekki sú lengsta sem hefur gert það og Eleanor Catton er auk þess yngsti höfundurinn til að hljóta þessi verðlaun.

Sagan gerist á Nýja Sjálandi í gullæðinu þar á 19. öld þegar hvítir menn eru að flytjast til landsins í fyrsta sinn. Kjarninn í sögunni er rágáta um horfið gull, látinn mann og annan sem er horfinn. Svo fer öll bókin í það að segja okkur mismunandi brot af sögunni útfrá sjónarhornum tólf sögupersóna sem við þurfum svo aðeins að púsla saman.

Catton var mjög upptekin af forminu við skrif bókarinnar og snýst það allt um dýrahring stjörnumerkjanna og stjörnuspeki. Bókinni er skipt upp í tólf kafla sem verða sífellt styttri eftir því sem líður á bókina. Mér finnst Catton aðeins hafa tapað sér í forminu og látið söguþráðinn gjalda þess. Sagan var framan af rosalega góð og áhugaverð en fer eftir kannski 500 blaðsíður (af 800) að verða full endurtekningarsöm. Bókin er samt frumleg og það var gaman að lesa eitthvað frá annarri heimsálfu en þessum tveim sem meirihluti bóka sem ég les virðist vera frá. Ég er því ánægð með að hafa lesið The Luminaries en ég er líka fegin að ég er búin að því.

Bók 50: Burial Rites eftir Hannah Kent

Burial_Rites_HBD_FCÞessa bók hreinlega varð ég að lesa eftir að ég heyrði um hana fyrst. Hún er nefninlega skrifuð á ensku og af ástralskri konu en segir frá atburðum á Íslandi á 19. öld.

Sagan segir í stuttu máli frá Agnesi Magnúsdóttur sem var dæmd til dauða ásamt tveimur öðrum fyrir morðin á Natani Ketilssyni og Pétri Jónssyni. Agnesi er komið fyrir hjá fjölskyldu í sveitinni þar sem ekki voru til önnur fangelsisúrræði og átti þar að bíða aftöku sinnar en leggja sitt af mörkum til heimilishalds á meðan. Ungum presti er falið að annast sáluhjálp hennar og kynnumst við Agnesi til að byrja með í gegnum samtöl þeirra en einnig skiptist sagan á því að vera sögð í þriðju persónu og fyrstu persónu útfrá Agnesi sjálfri. Við fáum þannig baksögu Agnesar og hvað það var sem leiddi til morðanna en einnig fáum við svolítið að kynnast fjölskylunni sem hún býr hjá og lifnaðarháttum þeirra.

Mér fannst þetta ágæt bók en ég var ekki eins yfir mig hrifin og margir aðrir sem ég hafði heyrt frá, flestir þeirra erlendir. Kannski tengist það því að einhverju leiti að maður hefur lesið margar aðrar sögur sem segja frá Íslandi á þessum tíma en það hafa ef til vill ekki útlendingar gert. Svo fannst mér það skapa ákveðna fjarlægð á milli mín og sögupersónanna og atburðanna í bókinni að lesa um Íslendinga að tala við hvorn annan á ensku. Bókin var samt vel skrifuð og sagan áhugaverð.

Bók 49: The Interestings eftir Meg Wolitzer

style-agenda-meg-w_2633159aÞessa bók var mikið verið að fjalla um á tímabili í ár og hún var á metsölulista New York Times. Ég held að ég hafi heyrt fjallað um hana í NPR Books hlaðvarpinu.

Bókin segir sögu vinahóps og skiptist á að segja okkur söguna útfrá sjónarhorni mismunandi vina í hópnum. Þau kynnast í sumarbúðum fyrir listhneigða unglinga og eru öll mjög efnileg á mismunandi sviðum. Ethan er rosalega góður teiknari, Ash er dramatískur leikari, Jules er gamanleikari, Jonah er tónlistarmaður og Cathy er dansari. Þau ákveða að kalla sig The Interestings eða hin áhugaverðu á örlítið kaldhæðinn hátt en það sem er svo virkilega áhugavert við bókina er hvernig hún fylgir eftir ævi þessara fimm vina og hvernig það rætist úr hæfileikum þeirra sumra en ekki allra. Bókin sýnir okkur líka hversu erfitt það getur verið að horfa upp á fólk sem er nákomið þér láta alla sína drauma rætast á meðan þínir halda ávalt áfram að vera utan seilingar.

Ég upplifði svo virkilega súrealískt augnablik við lestur bókarinnar þegar ég var í járnbrautalest í Noregi að lesa ameríska bók sem allt í einu fer með sögupersónurnar sínar til Reykjavíkur! Ég vil ekki segja frá því af hverju lesandinn finnur sig allt í einu í Reykjavík af því að það myndi uppljóstra of miklu um söguþráðinn en þarna er allt í einu Hótel Borg, Bæjarins bestu, Breiðholt og Guðrún Sigurðsdóttir (ekki Sigurðardóttir heldur Sigurðsdóttir) og maðurinn hennar…Falkor! (Það var mjög spes eftir alla rannsóknarvinnuna sem virðist hafa farið í að endurskapa þarna Reykjavík áttunda áratugarins að skíra svo eina sögupersónununa, sem á að vera íslensk svo það sé á hreinu, eins fáránlegu og óíslensku nafni eins og Falkor!)

Ég var samt rosalega ánægð með þessa bók og hún verður pottþétt ofarlega á lista yfir uppáhaldsbækur ársins þegar kemur að svoleiðis.

Bók 48: On Cats eftir Doris Lessing

oncatsSem mikill kattaunnandi þá stóðst ég ekki mátið þegar ég sá þessa litlu krúttaralegu bók í bókabúð í Osló. Það að hún er auk þess eftir Nóbelskáldið Doris Lessing gerði hana svo ennþá meira freistandi.

Ég er búin að vera að lesa bókina af og á í nokkrar vikur en hún samanstendur af þremur sögum um kettina í lífi Lessing. Fyrsta sagan gerist í Rhodesíu (nú Zimbabwe) þar sem Lessing bjó sem barn og kettir voru frekar húsdýr en gæludýr. Þeir fjölguðu sér mikið og þurfti reglulega að lóga til þess að halda fjöldanum í skefjum. Þetta hefur ef til vill litað viðhorf Lessing til katta seinna á ævinni, eins og seinni tvær sögurnar sýna okkur en þær fjalla um ákveðna ketti í lífi Lessing þegar hún er fullorðin og býr í Englandi. Hún nefninlega var ekkert voða dugleg við það að annað hvort láta læðurnar sínar á getnaðarvarnir eða taka þær úr sambandi og þurfti því sí og æ að vera að lóga kettlingunum þeirra. Þetta skildi ég ekki alveg nógu vel, er betra að vera sífellt að drepa litla kettlinga en einfaldlega taka læðurnar bara af markaðinum?

Hún segir samt líka sögur um kettina sína sem sýna mismunandi persónuleika þeirra og það var gaman að lesa það. Þetta var fín svona uppfyllingar-bók, en ekkert rosalega mikið meira en það.

Bók 47: Beloved eftir Toni Morrison

beloved2Ég hef rosalega lengi verið á leiðinni að lesa þessa bók enda hef ég lesið flest annað eftir Toni Morrison en hún hlaut Pulitzer verðlaunin fyrir þessa árið 1988 og svo Nóbelsverðlaunin í bókmenntum fimm árum seinna. Af einhverri ástæðu hafði ég samt látið bókina hræða mig því ég hélt að hún væri voða þung og erfið lestrar. En ég ákvað samt núna loksins að láta slag standa, fékk mér hana á Kyndilinn og sá heldur betur ekki eftir því.

Það er frekar erfitt að útskýra söguþráðinn í þessari bók þar sem Morrison notast mikið við töfraraunsæi (eins og ég ímynda mér að „magical realism“ útleggist á íslensku). Bókin gerist eftir þrælastríðið í Bandaríkjunum og segir sögu Sethe. Sethe er fyrrum þræll sem strauk úr þrælhaldi til nágrannafylkis þar sem hún gat lifað frjáls með börnunum sínum fjórum, tveimur strákum og tveimur stelpum. Þegar bókin hefst býr hún samt ein með dóttur sinni í reimdu húsi, en reimleikarnir eru taldir stafa af eldri dóttur hennar sem lést mjög ung við vofeiglegar aðstæður. Báðir synir Sethe hafa flutt að heiman vegna reimleikanna. Þegar annar sloppinn þræll af sömu plantekru og Sethe var, Paul D., fær að dveljast hjá þeim hætta reimleikarnir mjög skyndilega en þess í stað birtist dularfull ung kona sem segist bara heita Beloved. Í nafn hennar er hægt að lesa ýmislegt en „Beloved“ var einmitt eina orðið sem Sethe hafði efni á að láta rita á legstein látinnar dóttur sinnar.

Við komumst að því um miðbik bókarinnar nákvæmlega hvað kom fyrir eldri dóttur Sethe og því hika ég aðeins við að segja frá því en á sama tíma komst ég að því eftir lestur bókarinnar að hún er að hluta til byggð á sönnum atburðum sem tengjast einmitt dauða dótturinnar. Ég ráðlegg því þeim sem ekki vilja vita þetta að hætta að lesa þessa málsgrein hér og hoppa beint yfir í þá næstu. Fyrir þá sem vilja vita meira er hægt að merkja textann hér á milli örvanna (þ.e. „highlight-a“) til að lesa.

–>Það kemur semsagt í ljós að Sethe drap sjálf dóttur sína þegar þrælafangari ætlað að grípa hana og börnin og senda til baka á plantekruna. Hún taldi börnum sínum betur fyrir komið dauðum en í þrældómi en náði bara að drepa elstu dótturina áður en hún var stoppuð.<–

Þetta er rosalega mögnuð bók og í henni tekst Morrison ekki aðeins að segja okkur áhugaverða og átakanlega sögu en einnig að gefa okkur smjörþefinn af þjáningum þrælanna í Bandaríkjunum. Hún treystir lesendum sínum auk þess fullkomnlega til þess að átta sig á hlutunum þó svo að hún segi okkur ekki allt með berum orðum og það er eitt af því sem mig hefur alltaf líkað svo vel við hana sem rithöfund. Þetta var átakanleg en afskaplega fallega skrifuð saga sem ég er mjög ánægð með að hafa loksins lesið.

Bók 46: Middlemarch eftir George Eliot

cover_imageÉg er rosalega hrifin orðin af því að hlusta á svona gamlar enskar bókmenntir af hljóðbók þegar ég vil slaka á. Það er ekkert sem er eins kósý svona rétt fyrir svefninn eins og bresk saga um ástir og örlög þar sem það hræðilegasta sem gerist er að einhver er sviptur arfinum sínum eða fær ekki að giftast þeim sem hann eða hún vill.

Middlemarch er semsagt alveg fullkomið dæmi um svona kósý gamla enska bók en hún kom fyrst út árið 1871 og bar þá hinn yndislega undirtitil „A Study of Provincial Life“ eða Rannsókn á sveitalífi. George Eliot var pennanafn Mary Ann Evans en á þessum tíma var ekki óalgengt fyrir konur sem vildu vera teknar alvarlega að skrifa undir karlmannsnafni, Brontë systur gerðu það til dæmis líka.

Bókin gerist á 19. öldinni í tilbúna bænum Middlemarch og sýður í raun saman nokkrar sögur af fólkinu í bænum. Í bókinni fáum við m.a. að kynnast Dorotheu Brooke sem hefur mjög ákveðnar skoðanir á því hvers konar manni hún vill giftast en svo leiðir sagan það í ljós hversu vel ígrundaðar þær skoðanir voru. Við kynnumst líka nýja þorpslækninum Lydgate og hans vali á kvonfangi sem virðist ef til vill vera byggt á of yfirborðskenndum þáttum. Svo er það arfurinn blessaði sem ekki skilar sér þangað sem honum er ætlað, eins og ég minntist á hér að ofan, en það er hinn ungi Fred Vincy sem verður fyrir barðinu í þeim söguþræði.

Þessi saga kannar mörg málefni, þeirra á meðal hjónabandið og stöðu kvenna í því sem og hinar háleitu hugmyndir sem við höfum oft um okkur sjálf eða aðra og hvað gerist þegar þær komast í kast við raunveruleikann. Bókin er talin meðal klassískra enskra bókmennta í dag og hún stóð fyllilega undir þeim væntingum sem sú flokkun skapaði í huga mér.