Cat’s Eye eftir Margaret Atwood

catseyeÉg hef átt þessa bók uppí hillu í dágóðan tíma. Áður hef ég lesið lesið fjórar bækur eftir Atwood sem skrifar bæði vísindaskáldskap sem og alvarlegri bókmenntaverk, en þessi fældi mig alltaf frá og ég held að það hafi aðallega verið bókakápan sem er alveg agalega 90-og-eitthvað. Það stendur samt líka á kápunni að bókin hafi lent á stutta listanum fyrir Booker verðlaunin og þess vegna lét ég mig loksins hafa það að opna hana.

Bókin segir frá Elaine sem er málari. Hún passar sig að kalla sig ekki listamann af því að það finnst henni agalega tilgerðalegt en hún er málari og í byrjun bókar snýr hún aftur til heimaborgar sinnar, Toronto í Kanada, þar sem fram á að fara yfirlitssýning yfir feril hennar í listagallerýi. Það er greinilegt að það að snúa aftur á æskuslóðirnar kallar fram ýmsar minningar hjá Elaine og fer bókin í endurminningar hennar að mestu leyti.

Elaine eyddi fyrstu æskuárunum í ferðalög um norður-Kanada með föður sínum, sem var skordýrafræðingur, móður og eldri bróður. Þau þurftu að lifa ansi frumstætt og sváfu mikið til úti svo það voru stór viðbrigði þegar þau keyptu loksins fokhelt hús í Toronto og settust þar að. Elaine, sem hingað til hefur einungis umgengist bróður sinn, fer núna í fyrsta sinn í skóla þar sem það er ætlast til þess að hún eignist vinkonur. Það gerist sem betur fer nokkuð auðveldlega þó svo að Elaine sé frekar utangátta og þykist meira hafa gaman af leikjum þeirra en að njóta þeirra í raun og veru. Hún er samt ansi vel innvígð í heim stúlkna þegar Cordelia flytur í hverfið og bætist í vinkonuhópinn. Með Cordeliu breytist dínamíkkin í hópnum og Elaine verður útskúfuð og gagnrýnd fyrir allt sem hún gerir eða gerir ekki, hún lendir í einelti. Hún heldur áfram að reyna að tilheyra en er síendurtekið brotin niður og að lokum er maður sem lesandi farinn að grátbiðja hana um að labba bara í burtu. Foreldrar allra stúlknana, þ.m.t. Elaine, virðast vita að eitthvað er í gangi en aðhafast ekkert.

Bókin fjallar samt ekki bara um þetta tímabil í ævi Elaine en ég vil ekki spilla því of mikið hvernig fer. Það er samt augljóst alla bókina að hún á í ansi flóknu sambandi við Cordeliu sem endist eitthvað fram á fullorðinsár.

Mér fannst mjög erfitt að lesa um eineltisárin og á sama tíma frekar undarlegt hvernig þau enduðu (fyrir þig sem ætlar að lesa þessa bók, ekki búast við neinu rosa uppgjöri eða uppreisn æru). Annað sem truflaði mig voru lýsingarnar á kvennfólki sem virtust mest eiga að snúast um hversu miklu betri Elaine væri en meðalkonan af því að hún hefði umgengist karlmenn svo mikið og hugsaði meira eins og þeir.

Þrátt fyrir þessa smá agnúa í frásögninni heillaði þessi bók mig mikið. Það sem gerði hana áhugaverða fyrir mig var ekki bara að lesa um konu sem upplifir sig sem ósköp venjulega en vinnur samt við frekar óvenjulegan hlut án nokkurar tilgerðar eins og listamönnum hættir til, heldur líka viðhorf hennar gangvart því að eldast og hversu erfitt það getur verið fyrir miðaldra konur að vera teknar alvarlega fagmannlega. Hún er kannski ekki sú heilbrigðasta þegar kemur að ástarsamböndum en gallar eru það sem gera persónur heilsteyptar.

Ég sé á Wikipedia að 1989, árið sem þessi bók lenti á stutta listanum fyrir Booker verðlaunin, vann bók Kazuo Ishiguros, The Remains of the Day, og ég get ekki verið annað en sammála því að sú bók sé betri. Það breytir því samt ekki að ég er ánægð með að hafa lesið þessa og myndi mæla með henni.

Auglýsingar

Night Film eftir Marishu Pessl

Pessl_Night-FilmÞegar ég frétti af því að Marisha Pessl sem skrifaði Special Topics in Calamity Physics væri loksins komin með nýja bók var mér eiginlega alveg sama um hvað sú bæk væri, ég vissi bara að ég vildi lesa hana. Þegar ég komst svo að því að þetta væri eins konar hryllingsbók eða bók með hryllingsívafi þá gat hún varla hljómað betur. Bókin var gefin út síðla árs 2013.

Night Film fjallar um dularfulla hryllingsmynda-gerðamanninn Stansislav Cordova, dóttur hans Ashley sem ferst að því er virðist fyrir eigin hendi og rannsóknarblaðamanninn Scott McGrath sem reynir að komast til botns í lífi mannsins og dauða dóttur hans.

Allt í kringum Cordova er sveipað dulúð. Myndirnar hans hafa laðað að sér dyggan hóp aðdáenda en maðurinn sjálfur ekki sést opinberlega í yfir 30 ár. Það er því ansi margt fyrir Scott og aðstoðarmennina hans tvo til þess að grafa upp en rannsóknin leiðir þau í margar óhugnalegar aðstæður og við sögu virðast koma svartir galdrar og fleira yfirnáttúrulegt. En hvað var það virkilega sem bjó að baki dauða Ashley og mun það leiða McGrath einhverju nær því að skilja föður hennar?

Bókin blandar saman hreinum texta við blaðagreinar, ljósmyndir og skjámyndir af vefsíðum til þess að segja sögu sína. Auk þess er dreift um bókina myndum sem maður getur skannað með ákveðnu smáriti í snjallsíma og fengið með því auka upplýsingar sem dýpka söguna án þess að vera beinlínis nauðsynlegar fyrir hana.

Mér fannst Pessl gera það mjög vel að sýna okkur undarlega og óhugnalega heiminn sem Cordova lifði og hrærðist í. Bókin varð kannski aldrei virkilega ógnvekjandi („scary“) en manni líður samt oft óþæginlega við lesturinn og ég held að það hafi einmitt verið ætlunin. Þetta var geggjuð bók sem ég mæli eindregið með fyrir hryllingsaðdáendur sem og þá sem hafa gaman af myrkum undirtónum í skáldskapnum sínum.

Hús úr húsi eftir Kristínu Marju Baldursdóttur

husurhusiKristín Marja Baldursdóttir er að mínu mati yndislegur rithöfundur sem skrifar skemmtilegar bækur úr íslenskum raunveruleika með góðum kvennpersónum í fyrirrúmi. Þess vegna keypti ég að sjálfsögðu þessa bók þegar ég sá hana til sölu notaða (segir maður það um bækur? ætti ég kannski frekar að segja „forlesna“?) fyrir u.þ.b. ári síðan. Bókin var upprunalega gefin út af Máli og Menningu árið 1997.

Bókin fjallar um Kolfinnu sem er nýhætt í löngu sambandi og flutt aftur heim til mömmu sinnar. Hún er búin að vera atvinnulaus í einhvern tíma og hatar lífið sitt en býðst að taka við starfi vinkonu sinnar við heimilisþrif þegar téð vinkona fer í fæðingarorlof. Kolfinna þrífur fjögur heimili á viku á meðan hana dreymir um betra og fegurra líf. Hún fer svo smátt og smátt að kynnast heimiliseigendunum og í þeim kynnum finnum við einmitt söguþráðinn að mestu leyti.

Mér fannst þetta skemmtileg bók en samt var margt við hana sem fór í taugarnar á mér. Aðallega var það persónusköpun Kolfinnu sjálfrar. Hún á greinilega að vera mjög falleg þar sem allir sem hún kynnist laðast að henni en á sama tíma á hún greinilega að vera alveg grunlaus um það sjálf sem mér finnst mjög ólíklegt og óraunverulegt. Auk þess hefur hún lítinn metnað fyrir líf sitt sem er kannski ekki svo slæmt enda snýst bókin um það að hún sé að finna sjálfa sig en mér fannst þá vanta aðra kvennpersónu sem var sjálfstæð og vissi hvað hún vildi til að vega upp á móti. Allar kvennpersónurnar í sögunni sækja hamingju sína og velgengni (eða skort þar á) til karlmanna.

Ég get samt ekki neitað því að ég hafði gaman af bókinni og því að Kristín Marja er alveg einstakur sögumaður. Ég mæli því með því að fólk lesi þessa en geri það samt sem áður með gagnrýnu auga á heimsmyndina sem hún sýnir okkur- eins og maður ætti nú reyndar alltaf að gera.

A Marker to Measure Drift eftir Alexander Maksik

markerÞessi bók kom út í fyrra og ég var búin að vera í svolítinn tíma á leiðinni að lesa hana. Í anda þess að lesa það sem ég á uppí hillu greip ég hana svo með mér um daginn þegar mér vantaði lesefni fyrir lestina.

Bókin fjallar um Jaqueline sem er frá Líberíu og baráttu hennar fyrir því að finna sér stað í heiminum eftir að hún hefur neyðst til þess að flýja heimalandið sitt undan afleiðingum stjórnar Charles Taylor.

Bókin gefur bara stutta innsýn inní lífið hennar á sínum 240 blaðsíðum en við fáum samt að fylgjast með harðindunum við þetta líf; að sofa í helli, vera hrædd við allt og alla sem líta á mann tvisvar, stanslausa ögrunin við að halda sér nógu vel nærðri til þess að geta haldið áfram o.s.frv. Á meðan öllu þessu gengur á Jaqueline svo í innri samræðum við móður sína en hún er eins konar rödd skynseminnar í huga hennar.

Alla bókina í gegn er lesandanum strítt með smábrotum um örlög fjölskyldu Jaqueline. Það var augljóst frá byrjun, fannst mér, að við myndum ekki fá alla söguna fyrr en rétt undir lokin, að það ætti að notfæra þann harmleik til hins ítrasta til að halda okkur við efnið og finnst mér það gimmikk orðið svolítið þreytt. Maður gat auk þess ímyndað sér eða vitað að eitthvað slæmt hefði komið fyrir þau, án þess að vita smáatriðin og svo var afhjúpunin ekki það ólík þeirri ímyndun svo mér fannst þetta ekki virka. Á sama tíma er bókin samt mjög fallega skrifuð og það hvarlaði að mér að kannski á það ekki eftir allt saman að vera plottið sem drífur hana áfram heldur ljóðrænn eiginleiki tungumálsins.

Útaf þessari tvíblendni minni endaði bókin með hinar leiðinlegu þrjár-störnur-af-fimm einkunn á Goodreads. Einkunn sem bækur fá ævinlega þegar tilfinningar manns eru ekki nógu sterkar í hvora áttina sem er, „Ég elskaði þessa ekki en ég hataði hana ekki heldur. Hún var ágæt.“

The Goldfinch eftir Donnu Tartt

The_goldfinch_by_donna_tartÉg hafði lesið fyrstu bók Tartt, The Secret History, og var mjög ánægð með hana svo ég var náttúrulega frekar spennt þegar ég frétti að hún væri að fara að gefa út nýja og var ekki lengi að fá mér hana. Ég var aftur á móti mjög lengi að lesa hana en það er svosem önnur saga.

Þessi bók fjallar um Theodore Decker sem missir móður sína ungur þegar listasafnið sem þau eru að heimsækja á Manhattan er sprengt upp af hryðjuverkamönnum. Þegar hann rótar sig út úr rústunum með bara hálfa meðvitund tekur hann í einhverri rælni með sér ómetanlegt listaverk sem hafði verið þarna til sýnis, Gullfinkuna. Málverkið er svo rauði þráðurinn í gegnum alla bókina og stöðugi punkturinn í lífi Theo en hann lendir í ýmsu á leið sinni til fullorðinsaldurs.

Mér fannst Tartt gera það mjög vel að sýna okkur hvernig óvenjuleg æska Theos mótar hann sem fullorðinn einstakling. Það þýðir samt ekkert endilega að manni líki við hann, hann fór virkilega í taugarnar á mér á tímabili en samt ekki þannig að ég hætti að njóta sögunnar, mér var nefninlega alltaf annt um hann og langaði til að hlutirnir rættust fyrir hann. Það finnst mér vera merki um góðan penna. Bókin er kannski aðeins langdregin á köflum og er það hennar helsti galli, við fáum til að mynda aðeins of mikið að vita um hvernig gömul húsgögn eru gerð upp. Mér fannst líka endirinn full snyrtilegur án þess að ég segi meira um það til að spilla honum ekki. En þrátt fyrir þessa smá galla er þetta rosalega góð bók og ég mæli eindregið með henni.

_________________________________________

Fjúkk, þá er ég loksins búin með þessa fyrstu bók ársins! Nú er það bara að fara að lesa eitthvað meira til þess að ná mér á strik, ég er virkilega eftirá í ár miðað við síðustu lestrarár mín. Ég ákvað samt að setja mér ekki takmark í ár með fjölda bóka en er frekar búin að einsetja mér að lesa sem mest af bókunum sem ég á nú þegar uppí hillu, allavega núna og fram í apríl. Við skötuhjúin munum nefninlega leggja í landflutninga í lok apríl þegar við flytjum frá Noregi og aftur heim til Íslands!

Bók 52: Alex eftir Pierre Lemaitre

alex-pbkÉg hafði heyrt um þessa hjá Savidge Reads en hann var svo svakalega hrifinn af henni að ég freistaðist líka. Bókin er upprunalega gefin út á frönsku og er önnur í seríu en af einhverri ástæðu hefur sú fyrsta ekki enn verið þýdd. Það kom þó ekki að sök við lesturinn og ef ég hefði ekki vitað að það ætti að vera önnur á undan þá hefði ég ekki uppgötvað það við lesturinn.

Bókin fjallar um unga stúlku, Alex, sem er rænt og lögreglumanninn, Verhœven, sem er að reyna að finna hana. Málið reynist samt vera miklu flóknara en bara þetta eina mannrán og það er þar sem hlutirnir fara að verða áhugaverðir.

Bókin er ekki þessi týpíski krimmi, langt þar í frá. Eitt af því sem gerir hana svolítið spes er að frásögnin skiptist á að vera útfrá rannsóknarlögreglumanninum og svo fórnarlambinu sjálfu, þ.e.a.s. við komumst aðeins inní hausinn á Alex sjálfri sem reynist mjög áhugavert. Bókin vekur líka upp ýmsar spurningar um rétt og rangt og hvað það er sem kemur uppá og getur leitt fólk út á glæpabrautina.

Þetta var rosa fín svona „pásu bók“ eða bók sem maður les þegar maður vill taka sér smá pásu frá þyngri lestri. Ég var mjög spennt í henni sem er náttúrulega það sem maður er að leitast eftir hjá krimmum. Endirinn fór ofurlítið í taugarnar á mér en alls ekki svo að hann eyðilegði ánægjuna af lestri bókarinnar.

                                                                      

Núna er ég þá búin að skrifa um 52 bækur sem ég las á árinu 2013, þó svo ég hafi í raun lesið aðeins fleiri bækur en það. Ég reikna fastlega með að halda áfram að skrifa hérna um bækurnar sem ég les en veit ekki hvort ég mun halda áfram að númera þær. Þá er best að drífa sig í að klára bókina sem ég er að lesa núna, The Goldfinch eftir Donnu Tartt, svo ég geti skrifað um hana hérna sem fyrst. 

Bók 51: The Luminaries eftir Eleanor Catton

the_luminaries_a_pÉg var svo heppin eða sniðug að hafa pantað þessa bók á bókasafninu í Osló rétt áður en tilkynnt var hver hefði hlotið Booker verðlaunin svo ég var fremst í röðinni þegar listinn tífaldaðist í lengd. Bókin hlaut semsagt Booker verðlaunin í ár og er með lengri bókum ef ekki sú lengsta sem hefur gert það og Eleanor Catton er auk þess yngsti höfundurinn til að hljóta þessi verðlaun.

Sagan gerist á Nýja Sjálandi í gullæðinu þar á 19. öld þegar hvítir menn eru að flytjast til landsins í fyrsta sinn. Kjarninn í sögunni er rágáta um horfið gull, látinn mann og annan sem er horfinn. Svo fer öll bókin í það að segja okkur mismunandi brot af sögunni útfrá sjónarhornum tólf sögupersóna sem við þurfum svo aðeins að púsla saman.

Catton var mjög upptekin af forminu við skrif bókarinnar og snýst það allt um dýrahring stjörnumerkjanna og stjörnuspeki. Bókinni er skipt upp í tólf kafla sem verða sífellt styttri eftir því sem líður á bókina. Mér finnst Catton aðeins hafa tapað sér í forminu og látið söguþráðinn gjalda þess. Sagan var framan af rosalega góð og áhugaverð en fer eftir kannski 500 blaðsíður (af 800) að verða full endurtekningarsöm. Bókin er samt frumleg og það var gaman að lesa eitthvað frá annarri heimsálfu en þessum tveim sem meirihluti bóka sem ég les virðist vera frá. Ég er því ánægð með að hafa lesið The Luminaries en ég er líka fegin að ég er búin að því.