A Marker to Measure Drift eftir Alexander Maksik

markerÞessi bók kom út í fyrra og ég var búin að vera í svolítinn tíma á leiðinni að lesa hana. Í anda þess að lesa það sem ég á uppí hillu greip ég hana svo með mér um daginn þegar mér vantaði lesefni fyrir lestina.

Bókin fjallar um Jaqueline sem er frá Líberíu og baráttu hennar fyrir því að finna sér stað í heiminum eftir að hún hefur neyðst til þess að flýja heimalandið sitt undan afleiðingum stjórnar Charles Taylor.

Bókin gefur bara stutta innsýn inní lífið hennar á sínum 240 blaðsíðum en við fáum samt að fylgjast með harðindunum við þetta líf; að sofa í helli, vera hrædd við allt og alla sem líta á mann tvisvar, stanslausa ögrunin við að halda sér nógu vel nærðri til þess að geta haldið áfram o.s.frv. Á meðan öllu þessu gengur á Jaqueline svo í innri samræðum við móður sína en hún er eins konar rödd skynseminnar í huga hennar.

Alla bókina í gegn er lesandanum strítt með smábrotum um örlög fjölskyldu Jaqueline. Það var augljóst frá byrjun, fannst mér, að við myndum ekki fá alla söguna fyrr en rétt undir lokin, að það ætti að notfæra þann harmleik til hins ítrasta til að halda okkur við efnið og finnst mér það gimmikk orðið svolítið þreytt. Maður gat auk þess ímyndað sér eða vitað að eitthvað slæmt hefði komið fyrir þau, án þess að vita smáatriðin og svo var afhjúpunin ekki það ólík þeirri ímyndun svo mér fannst þetta ekki virka. Á sama tíma er bókin samt mjög fallega skrifuð og það hvarlaði að mér að kannski á það ekki eftir allt saman að vera plottið sem drífur hana áfram heldur ljóðrænn eiginleiki tungumálsins.

Útaf þessari tvíblendni minni endaði bókin með hinar leiðinlegu þrjár-störnur-af-fimm einkunn á Goodreads. Einkunn sem bækur fá ævinlega þegar tilfinningar manns eru ekki nógu sterkar í hvora áttina sem er, „Ég elskaði þessa ekki en ég hataði hana ekki heldur. Hún var ágæt.“

Auglýsingar