Hús úr húsi eftir Kristínu Marju Baldursdóttur

husurhusiKristín Marja Baldursdóttir er að mínu mati yndislegur rithöfundur sem skrifar skemmtilegar bækur úr íslenskum raunveruleika með góðum kvennpersónum í fyrirrúmi. Þess vegna keypti ég að sjálfsögðu þessa bók þegar ég sá hana til sölu notaða (segir maður það um bækur? ætti ég kannski frekar að segja „forlesna“?) fyrir u.þ.b. ári síðan. Bókin var upprunalega gefin út af Máli og Menningu árið 1997.

Bókin fjallar um Kolfinnu sem er nýhætt í löngu sambandi og flutt aftur heim til mömmu sinnar. Hún er búin að vera atvinnulaus í einhvern tíma og hatar lífið sitt en býðst að taka við starfi vinkonu sinnar við heimilisþrif þegar téð vinkona fer í fæðingarorlof. Kolfinna þrífur fjögur heimili á viku á meðan hana dreymir um betra og fegurra líf. Hún fer svo smátt og smátt að kynnast heimiliseigendunum og í þeim kynnum finnum við einmitt söguþráðinn að mestu leyti.

Mér fannst þetta skemmtileg bók en samt var margt við hana sem fór í taugarnar á mér. Aðallega var það persónusköpun Kolfinnu sjálfrar. Hún á greinilega að vera mjög falleg þar sem allir sem hún kynnist laðast að henni en á sama tíma á hún greinilega að vera alveg grunlaus um það sjálf sem mér finnst mjög ólíklegt og óraunverulegt. Auk þess hefur hún lítinn metnað fyrir líf sitt sem er kannski ekki svo slæmt enda snýst bókin um það að hún sé að finna sjálfa sig en mér fannst þá vanta aðra kvennpersónu sem var sjálfstæð og vissi hvað hún vildi til að vega upp á móti. Allar kvennpersónurnar í sögunni sækja hamingju sína og velgengni (eða skort þar á) til karlmanna.

Ég get samt ekki neitað því að ég hafði gaman af bókinni og því að Kristín Marja er alveg einstakur sögumaður. Ég mæli því með því að fólk lesi þessa en geri það samt sem áður með gagnrýnu auga á heimsmyndina sem hún sýnir okkur- eins og maður ætti nú reyndar alltaf að gera.

Auglýsingar