Topp 5 íslensk skáldverk sem vekja áhuga minn úr jólabókaflóðinu í ár

Ég ætla að taka upp á því hérna á síðunni að vera einstöku sinnum með topp 5 lista yfir eitthvað bókatengt. Núna eru Bókatíðindi dottin inn um lúguna hjá landsmönnum og því ekki úr vegi að glugga aðeins í þau og taka saman topp 5 íslensk skáldverk sem vekja áhuga minn úr jólabókaflóðinu.

 5. Drón eftir Halldór Armand

Ég las ekki bók Halldórs um Vince Vaughn en er forvitin um þessa. Alltaf gaman að prófa nýja höfunda en þetta er eina bókin á þessum lista sem er eftir höfund sem ég hef ekki lesið neitt annað eftir. Þessi virkar eins og hún sé skemmtileg, með óvenjulegum söguþræði, en eins og hún hafi líka eitthvað að segja. Ef það er vel gert, ætti það að vera mjög góð blanda.

 4. Kata eftir Steinar Braga

Þessa bók hefur verið mikið fjallað um síðan hún kom út núna í október. Ég hefði samt verið forvitin þó hún hefði ekki hlotið neitt umtal vegna þess að Steinar skrifar mjög áhugaverðar bækur, allavega þær þrjár sem ég hef lesið (Konur, Himinninn yfir Þingvöllum og Hálendið). Ég býst þess vegna ekki við öðru en að þessi verði áhugaverð. Ég vona að hann bregðist mér ekki af því að ég er þegar búin að setja þessa á óskalistann.

 3. Vonarlandið eftir Kristínu Steinsdóttur

Ég ætti ef til vill að játa undir eins að ég er þegar búin að lesa þessa og er mjög hrifin. Ég hef bara lesið eina aðra bók eftir Kristínu, Ljósu, sem ég var mjög hrifin af, en mig langar að lesa mun fleiri. Þessi bók segir frá heillandi tímum í Reykjavík á árdögum sínum og sérstaklega lífi kvenna á þessum stað og tíma.

 2. Öræfi eftir Ófeig Sigurðsson

Ég las fyrri bók Ófeigs, Skáldsögu um Jón, sem hlaut Bókmenntaverðlaun Evrópusambandsins og þessi vekur þess vegna forvitni mína. Söguþráðurinn virkar líka áhugaverður sem spillir ekki, einhvers konar mistería í sambland við óð „um öræfi íslenskrar náttúru og menningar,“ svo ég vitni í textann sem birtist um bókina í Bókatíðindum.

 1. Englaryk eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur

Ég er rosalega hrifin af bókum Guðrúnar Evu og læt þessa því ekki fram hjá mér fara. Það er alltaf eitthvað smá einkennilegt í heiminum sem hún skapar í bókum sínum og í þessari bók hittir ein sögupersónanna Jesú (ekki finnur heldur hittir) og út frá því spinnst sagan. Ég hef enga trú á öðru en Englaryk verði með bestu bókum jólabókaflóðsins.

Auglýsingar

Uppáhalds (og minnst uppáhalds) bækur 2012

Ef ég á að velja uppáhalds og síst uppáhalds bækur ársins sem leið, og þá á ég við bækur sem ég las á árinu ekki bækur gefnar út það ár, mundi það vera einhvernveginn á þessa leið:

Uppáhalds:

What I Loved eftir Siri Hustvedt. Þetta var fyrsta bókin sem ég las á árinu 2012 og því orðið langt síðan ég las hana. Man að hún var innileg, áhugaverð saga um tvo vini og fjölskyldur þeirra. Tungumálið var fallegt og mjög áhugaverðar lýsingar á listaverkum.

Ljósa eftir Kristínu Steinsdóttur. Líka langt síðan ég las þessa. Bókin segir frá ævi Ljósu, eins og hún var kölluð, sem stúlku, húsmóður, móður og mannesku sem glímir við geðsjúkdóm. Mjög innileg eins og fyrrnefnd bók og áhugaverð saga.

Fluga á vegg eftir Ólaf Hauk Símonarson. Fjölskyldusaga og uppvaxtarsaga. Hef alltaf gaman af þannig. Frásögn með húmor. Kannski spilaði inní að hérna var saga frá Reykjavík og ég var með heimþrá.

Great Expectations eftir Charles Dickens. Þetta var fyrsta bókin sem ég las eftir Dickens og hún var mjög skemmtileg. Það kom mér reyndar á óvart hversu skemmtileg og fyndin hún var. Mjög áhugaverðir karakterar og ekki klisjukenndur endir.

Cloud Atlas eftir David Mitchell. Margar sögur, fléttaðar saman. Allar sagðar með mismunandi stíl. Mjög sundurleitar sögur en einhvernveginn tekst Mitchell að láta þær hanga saman. Fannst helst pirrandi að lesa söguna sem gerist lengst í framtíðinni þar sem hún var skrifuð með hreim, þ.e.a.s. enskan var vitlaust skrifuð til þess að sýna það hvernig fólkið talaði. Sagan af klóninum fannst mér áhugaverðust en einnig elsta sagan sem gerist að miklu leiti á bát þar sem augljóslega er verið að eitra fyrir sögumanninum en hann veit það ekki sjálfur. Hef ekki séð kvikmyndina, þar sem það er ekki ennþá farið að sýna hana hérna í Noregi, en er spennt fyrir henni.

Beatles eftir Lars Saabye Christensen. Þetta er norsk bók og segir uppvaxtarsögu fjögurra vina sem búa í Osló sem eru mjög hrifnir af Bítlunum. Kaflarnir bera heiti platna frá Bítlunum og drengirnir eldast í takt við tónlist Bítlanna sem þróast, fyrst eru þeir saklausir eins og Please Please Me og svo í lokin meira djúpt þenkjandi í takt við White Album og Let it Be.

Allt með kossi vekur eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur. Ég er mjög hrifin af bókum Guðrúnar Evu, eða þeirra sem ég hef lesið. Þær eru alltaf svo spes, eitthvað aðeins öðruvísi í heiminum sem hún býr til, næstum yfirnáttúrulegt en ekki alveg hægt að benda á það (er hérna kannski helst að hugsa um Yosoy sem ég var mjög hrifin af). Þessi var mjög í þeim anda og skemmtileg. Davíð er ættleiddur sonur Elísabetar. Hún telur að sem unglingur hafi henni verið gefinn koss sem gerir það að verkum að hún hefur botnlausa orku og þarf aldrei að sofa. Davíð er alinn upp við þetta viðhorf en fer, þegar hann er unglingur sjálfur, að efast um þessa sögu móður sinnar. Það voru nokkrir hlutir sem trufluðu mig við þessa bók, formið á frásögninni ekki minnst þ.e.a.s. að Davíð sé að púsla saman vitneskju úr dagbókum og frásögn móður sinnar til að fá söguna, en sagan var mjög frumleg og áhugaverð.

Minnst uppáhalds: Hunger Games þríleikurinn (fyrir utan kannski fyrstu bókina sem var ágæt), Super Sad True Lovestory eftir Gary Shteyngart, Extremely Loud and Incredibly Close eftir Jonathan Safran Foer og The Finkler Question eftir Howard Jacobson (sem vann Booker verðlaunin svo ég hlýt að hafa verið að misskilja hana eitthvað, fannst hún bara svo leiðinleg).