Night Film eftir Marishu Pessl

Pessl_Night-FilmÞegar ég frétti af því að Marisha Pessl sem skrifaði Special Topics in Calamity Physics væri loksins komin með nýja bók var mér eiginlega alveg sama um hvað sú bæk væri, ég vissi bara að ég vildi lesa hana. Þegar ég komst svo að því að þetta væri eins konar hryllingsbók eða bók með hryllingsívafi þá gat hún varla hljómað betur. Bókin var gefin út síðla árs 2013.

Night Film fjallar um dularfulla hryllingsmynda-gerðamanninn Stansislav Cordova, dóttur hans Ashley sem ferst að því er virðist fyrir eigin hendi og rannsóknarblaðamanninn Scott McGrath sem reynir að komast til botns í lífi mannsins og dauða dóttur hans.

Allt í kringum Cordova er sveipað dulúð. Myndirnar hans hafa laðað að sér dyggan hóp aðdáenda en maðurinn sjálfur ekki sést opinberlega í yfir 30 ár. Það er því ansi margt fyrir Scott og aðstoðarmennina hans tvo til þess að grafa upp en rannsóknin leiðir þau í margar óhugnalegar aðstæður og við sögu virðast koma svartir galdrar og fleira yfirnáttúrulegt. En hvað var það virkilega sem bjó að baki dauða Ashley og mun það leiða McGrath einhverju nær því að skilja föður hennar?

Bókin blandar saman hreinum texta við blaðagreinar, ljósmyndir og skjámyndir af vefsíðum til þess að segja sögu sína. Auk þess er dreift um bókina myndum sem maður getur skannað með ákveðnu smáriti í snjallsíma og fengið með því auka upplýsingar sem dýpka söguna án þess að vera beinlínis nauðsynlegar fyrir hana.

Mér fannst Pessl gera það mjög vel að sýna okkur undarlega og óhugnalega heiminn sem Cordova lifði og hrærðist í. Bókin varð kannski aldrei virkilega ógnvekjandi („scary“) en manni líður samt oft óþæginlega við lesturinn og ég held að það hafi einmitt verið ætlunin. Þetta var geggjuð bók sem ég mæli eindregið með fyrir hryllingsaðdáendur sem og þá sem hafa gaman af myrkum undirtónum í skáldskapnum sínum.

Auglýsingar